Í haust geta viðskiptavinir Landsbankans lagt auðkennislyklana, sem nú hanga á lyklakippum flestra, á hilluna. Bankinn hyggst taka upp svokallað RSA kerfi í stað auðkennislykla. Að sögn Kristjáns Kristjánssonar, upplýsingafulltrúa bankans, er slíkt kerfi notað hjá ýmsum af stærstu bönkum heims. Nýja kerfið lærir að þekkja hegðun notandans með því að safna saman og greina aðgerðir í netbanka.

Landsbankinn verður fyrsti bankinn á Norðurlöndum til að innleiða þessa lausn. Fyrir einstaklinga tekur breytingin gildi seint í haust eða byrjun vetrar en þetta verður innleitt í netbanka fyrirtækja á næsta ári.