*

mánudagur, 13. júlí 2020
Innlent 29. maí 2020 11:55

Hætta að nýta hlutabótaleiðina

Icelandair mun ekki nýta hlutabótaleiðina áfram. Starfsmönnum verður boðið lægra starfshlutfall næstu tvo mánuðina.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Icelandair mun ekki nýta hlutabótaleiðina áfram og hefur í stað gripið til þeirra ráða að bjóða starfsfólki annað hvort lægra starfshlutfall eða skert laun en RÚV greindi frá þessu í morgun. 

Starfsfólk á taxtalaunum samkvæmt kjarasamningnum verður boðið að lækka starfshlutfall niður í 90%. Öðrum verður boðið að halda áfram í fullu starfi en þó með skertum launum. 

RÚV hefur þetta eftir orðsendingu forstöðumanns Viðhaldssviðs flugfélagsins til starfsfólks í morgun. Samkomulagið mun gilda í júní og júlí næstkomandi og fá starfsmenn póst síðar í dag þar sem óskað verður eftir rafrænni undirskrift fyrir klukkan tíu á sunnudaginn næsta.  

Viðskiptablaðið greindi frá því í gær að starfsmenn Icelandair hafa fengið mestu hlutabætur eða yfir 900 milljónir króna vegna svokallaðrar hlutabótaleiðarinnar. Heildarfjöldi starfsmanna Icelandair Group sem fékk greitt samkvæmt úrræðinu var 3.318 manns.

Uppfært klukkan 14:35:

Icelandair hefur staðfest að félagið muni ekki nýta hlutabótaleiðina frá og með 1. júní næstkomandi, nema hjá Iceland Travel. 

Það starfsfólk sem áfram starfar hjá Icelandair Group og flestum dótturfélögum færist flest í fyrra starfshlutfall frá og með 1. júní. Þó hefur verið óskað eftir því að það starfsfólk taki á sig 10% launaskerðingu eða 10% skert starfshlutfall í júní og júlí. Laun forstjóra og stjórnar munu áfram skerðast um 30% og laun framkvæmdastjóra um 25%.

„Til þess að geta undirbúið og hafið sókn af fullum krafti, þarf félagið nú fleiri hendur á dekk. Það er í mörg horn að líta enda krefst undirbúningur fyrir opnun landsins mikillar vinnu varðandi flugáætlun, sölu- og markaðsmál, þjónustu og útfærslu sóttvarna,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í tilkynningunni. 

„Á sama tíma hefur verið aukning verkefna í frakt- og leiguflugi, auk þess sem sinna þarf viðhaldi á þeim hluta flugflota félagsins sem er kyrrsettur. Þar að auki koma margar deildir að þeirri vinnu sem er nú í fullum gangi vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar félagsins.“

„Við viljum hafa sem flesta í fullu starfi eftir því sem hægt er og vonumst til þess að starfsmenn komi til móts við beiðni okkar um skert launa- eða starfshlutfall á meðan við komumst yfir erfiðasta hjallann.“