Forsvarsmenn ungverska lággjaldaflugfélagsins Wizz air hafa ákveðið að láta af innheimtu á handfarangri að því er kemur fram í frétt Bloomberg en Túristi fjallar einnig um málið. Flugfélagið flýgur ódýrt til Póllands, Litháen, Lettlands, Tékklands og Ungverjalands, frá Keflavíkurflugvelli. Forsvarsmenn flugfélagsins segja ástæðuna tvíþætta: Í fyrsta lagi hafi handfarangursgjaldið lengi farið í taugarnar á viðskiptavinum flugfélagsins og í öðru lagi hefur hagnaður af rekstri félagsins verið mjög mikill og því fannst stjórnendum rétt að að hætta gjaldheimtunni frá og með lokum október.

Í frétt Túrista segir að þrátt fyrir að handfarangursþóknunin hverfi úr bókunarvél Wizz, þá þurfa farþegar félagsins enn að greiða fyrir innritaðan farangur og er það gjald hærra en gengur og gerist hjá öðrum flugfélögum sem fljúga frá Keflavíkurflugvelli. Farþegar Wizz sem innrita sig ekki á netinu þurfa að greiða 10 evrur eða 1.200 krónur fyrir að innrita sig á hefðbundinn hátt. Einnig er bent á að eftir að handfarangursgjaldið hjá Wizz air heyrir sögunni til verður Wow air eina flugfélagið í flugstöð Leifs Eiríkssonar sem rukkar gjald fyrir handfarangur að því er kemur fram í frétt Túrista. Nemur verðið á bilinu 2 til 4 þúsund krónum, byggt á lengd flugferðarinnar.