Þeir sem reka verslun og veitingasölu við Geysi í Haukadal hafa hætt milligöngu um sölu aðgöngumiða að hverasvæðinu á Geysi. Verslunin á Geysi í Haukadal er í eigu Geysir Shops ehf. sem er sjálfstætt einkahlutafélag. Það tengist ekki Landeigendafélagi Geysis og hefur enga aðkomu að ákvörðunum um gjaldtöku á svæðinu.

Fram kemur í tilkynningu að eigendur verslunarinnar tóku þessa ákvörðun þar sem þeir vilja halda sig til hlés í deilum um gjaldtöku inn á svæðið. Landeigendur hófu að rukka fyrir aðgang að svæðinu 15. mars og eru aðgöngumiðar seldir af sölufólki við innganginn að svæðinu.

Aðgöngumiðar voru upphaflega einnig seldir í afgreiðslu verslunar- og veitingasölunnar. Í ljósi þess að lagaleg óvissa ríki um réttmæti gjaldtökunnar þá hafi því nú verið hætt.