Á dögunum var haldin ráðstefna á vegum Háskólans í Reykjavík, Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO) og Einkaleyfastofu um verndun hugverkaréttinda í rannsóknum. Á ráðstefnunni var leitast við að opna umræðu um hvernig háskólar meðhöndla hugverk sín og hvernig hægt er að búa til verðmæti úr þeirri þekkingu sem verður til innan fræðistofnana og nýta hana í þágu atvinnulífsins. Innlendir sem erlendir sérfræðingar segja að hér sé um að ræða gríðarlegt hagsmunamál fyrir háskólasamfélagið sem og atvinnulífið í heild.

Leggja til stofnun tækni- og þekkingaryfirfærsluskrifstofu

Á undanförnum misserum hefur í auknum mæli verið litið til hlutverks háskóla í hagnýtingu þekkingar í þágu atvinnulífsins. Til marks um það segir í Hugverkastefnu stjórnvalda fyrir tímabilið 2016 til 2022 að háskólasamfélagið, rannsóknastofnanir og önnur nýsköpunarstarfsemi gegni lykilhlutverki við hagnýtingu þekkingar og rannsóknarniðurstaðna, þjóðfélaginu öllu til góðs.Í umræddri Hugverkastefnu vekur sérstaklega athygli tillaga höfunda um að komið verði á fót sameiginlegri tækni- og þekkingaryfirfærsluskrifstofu sem geti aðstoðað alla háskóla og rannsóknastofnanir við að yfirfæra þekkingu sem orðið hefur til og gera úr henni verðmæti. Starfsemi sambærilegra skrifstofa er þekkt víða um heim.

Ásdísi Magnúsdóttur, aðjúnkt við Lagadeild Háskólans í Reykjavík og meðeigandi á Árnason Faktor, segir ráðstefnu um þessi málefni mikilvægt skref. „Það er mikilvægt tækifæri fyrir Háskólann í Reykjavík að fá sérfræðing frá WIPO til að koma hingað og ræða við okkur um þessi mikilvægu málefni. Þetta er umfjöllunarefni sem hefur fengið allt of litla athygli þrátt fyrir að skipta okkur mjög miklu máli, þá sérstaklega núna þegar atvinnulífið virðist vera að taka við sér. Innan háskólanna á sér stað mikil nýsköpun og ég er þess fullviss að það eru mörg ónýtt tækifæri sem felast í því að tengja betur saman þessa nýsköpun og atvinnulífið. Markmið ráðstefnunnar er að koma á raunverulegu samtali um það sem kallast getur „brú“ á milli háskóla og atvinnulífs, þ.e. að tryggja að rannsóknir innan háskólaumhverfisins skili sér og hafi áhrif á atvinnulífið okkur öllum til góða og er innlegg frá sérfræðingi á vegum WIPO sérstaklega mikilvægt því við erum ekki að finna upp hjólið hvað þetta varðar hér á landi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn tölublöð.