Frá og með gærdeginum býður Lífeyrissjóður Verzlunarmanna ekki lengur upp á verðtryggð lán með breytilegum vöxtum. Ákvörðunin verður virk frá á með gærdeginum, daginn eftir að Seðlabanki Íslands lækkaði stýrivexti niður í 3,25%, sem er það lægsta sem verið hefur síðan verðbólgumarkmið voru tekin upp með lögum árið 2001.

Ákvörðun lífeyrissjóðsins kemur fram í tilkynningu á vef sjóðsins, en þar kemur jafnframt fram að hámarksfjárhæð láns mun lækka úr 50 milljónum í 40 milljónir króna. Samhliða breytingunni lækka fastir vextir verðtryggðra lána úr 3,4% í 3,2%, en óverðtryggðir vextir standa óbreyttir í 5,14%, þrátt fyrir 0,25% lækkun stýrivaxta á miðvikudag.

Ekki er gefin sérstök ástæða fyrir því að hætt hafi verið að bjóða upp á breytilegu verðtryggðu lánin eingöngu, en sagt er frá því að eftirspurn eftir sjóðfélagalánum hafi mikið síðustu ár, sem hafi farið úr 6% í 13% af heildareignum sjóðsins frá 2015, og 3% til viðbótar því séu í umsóknarferli. Er vöxturinn sagður leiða að óbreyttu til ójafnvægis í áhættudreifingu sjóðsins.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segist í samtali við Fréttablaðið nú í morgun vera vonsvikinn með breytingarnar, ekki hafi verið lagt upp með þær þegar skipt var um stjórn í sjóðnum.„Við erum ekki ein sem komum að þessum sjóði, það eru líka at­vinnu­rek­endur. Það er alveg ljóst að það þarf að fara í gagn­gera endur­skoðun á bæði lána­stefnu og vaxta­stefnu líf­eyris­sjóðanna í heild sinni,“ segir Ragnar.

Hann sagist þó áfram bera fullt traust til stjórnarinnar, sem eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um , tók nýlega við eftir að VR afturkallaði umboð fráfarandi stjórnar í kjölfar ákvörðunar um hækkun vaxta á verðtryggðum lánum með breytilega vexti, nákvæmlega þau lán sem nú verður hætt að veita.