Dagblaðið Los Angeles Register hefur lagt upp laupana eftir sex mánaða útgáfu. Blaðið var stofnað til höfuðs Los Angeles Times, sem er ráðandi dagblað á svæðinu. Eigendurnir segja útgáfuna samt ekki vera mistök.

„Þeir sem hafa fylgst með inngöngu okkar á markað í Los Angeles verða líklega fljótir til að gagnrýna ákvörðun okkar um að koma á laggirnar nýju dagblaði, og þeir munu segja að okkur hafi mistekist,“ segja þeir Aaron Kushner og Eric Spitz í tilkynningu til starfsmanna. Þeir eiga Freedom Communications sem gaf LA Register út ásamt fleiri blöðum í Kaliforníu.

Kushner keypti fyrirtækið fyrir tveimur árum og veðjaði gegn tölvuvæðingu blaðaútgáfu með því að leggja háar fjárhæðir í prentuð blöð og tímarit. Hann tvöfaldaði meðal annars fjölda blaðamanna hjá fyrirtækinu og takmarkaði aðgang að heimasíðum blaðanna. Nú hefur blaðaútgáfunni hins vegar verið hætt, en heimasíðan verður áfram opin.