*

fimmtudagur, 6. maí 2021
Innlent 6. maí 2020 10:36

Hætta einni rannsókn og byrja aðra

Brim segir Samkeppniseftirlitið hafi tilkynnt að það „teldi ekki ástæðu til að aðhafast frekar“ en hefur svo nýja rannsókn.

Ritstjórn
Guðmundur Kristjánsson aðaleigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur (sem reyndar hét áður Brim) tilkynnti í síðustu viku að hann væri hættur sem forstjóri Brim (sem hét áður HB Grandi) eftir að hafa sest í stjórn þess.
Haraldur Guðjónsson

Samkeppniseftirlitið hefur tilkynnt útgerðarfélaginu Brim að það hefði hætt rannsókn á kaupum félagsins á Fiskvinnslunni Kamba hf. og Grábrók ehf., en jafnframt tilkynnti stofnunin félaginu um að það myndi hefja sjálfstæða rannsókn á mögulegum samruna í andstöðu við samkeppnislög.

Brim sendi frá sér tvær sjálfstæðar tilkynningar vegna málanna í kauphöllinni í gærkvöldi þar sem félagið sagði í annarri að Samkeppniseftirlitið hefði tilkynnt Brim „að það „teldi ekki ástæðu til að aðhafast frekar“ vegna kaupa félagsins á Fiskvinnslunni Kambi hf. og Grábrók ehf. Þar með eru allir fyrirvarar vegna kaupanna fallnir niður og verða þessi viðskipti kláruð samkvæmt samningum þar um.“

Í þeirri síðari sem send var 6 mínútum síðar var svo tilkynnt um að í sömu tilkynningu að ofan til félagsins hefði Samkeppniseftirlitið boðað að það myndi hefja sjálfstæða rannsókn á félaginu vegna viðskipta eigenda þess og tengdra aðila.

Snýst sú rannsókn á því hvort stofnast hafi til yfirráða Útgerðarfélags Reykjavíkur hf, sem er að mestu í eigu fráfarandi forstjóra Brim, Guðmundar Kristjánssonar, og tengdra aðila í Brimi hf, vegna tiltekinna viðskipta á árinu 2019 með eignarhluti í Brim.

Að mati Samkeppniseftirlitsins voru þessi viðskipti til þess fallin að hafa áhrif á mat á yfirráðum í félaginu í skilningi samkeppnislaga. Í þessu máli yrði tekin afstaða til þess hvort að við mögulega myndun yfirráða í Brimi hafi verið framkvæmdur samruni af hálfu aðila í andstöðu við 3. málsgrein 17. greinar a samkeppnislaga eins og segir í tilkynningunni.

Greinin sem um ræðir hljóðar svo í lögunum sem eru frá árinu 2005:

Tilkynna skal Samkeppniseftirlitinu um samruna áður en hann kemur til framkvæmda en eftir að samningur um hann er gerður, tilkynnt er opinberlega um yfirtökuboð eða yfirráða í fyrirtæki er aflað. Samruni sem fellur undir ákvæði laga þessara skal ekki koma til framkvæmda á meðan Samkeppniseftirlitið fjallar um hann.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma sprengdi Brim kvótaþakið með kaupunum á fyrirtækjunum tveimur á þrjá milljarða, en þau voru keypt af bróður forstjórans. Fiskifréttir sögðu hins vegar frá því Samkeppniseftirlitið hefði ekki gert neinar athugasemdir við kaup Brim, sem þá hét HB Grandi, á Ögurvík árið áður.

Viðskiptablaðið greindi fyrst frá því á sínum tíma þegar Guðmundur keypti ríflega þriðjungs hlut í HB Granda, af Kristjáni Loftssyni í Hval, á genginu 35 fyrir um 22 milljarða króna.

Hér má lesa frekari fréttir um vendingarnar hjá fyrirtækinu síðan þá: