Danski lífeyrissjóðurinn PFA segist hafa fundið leið til að auka ávöxtun sína á tímum mjög lágrar ávöxtunarkröfu .

Sértækir sjóðir eru dýrir í rekstri

„Hluti af okkar nýju stefnumörkun er að gera meira af okkar fjárfestingum sjálfir í stað þess að fara í gegnum sértæka sjóði,“ segir Christian Lage, sem er einn þeirra sem stýrir 83 milljörðum Bandaríkjadala lífeyrissparnaði sem annar fjárfestingarstjóri PFA lífeyrissjóðsins í Kaupmannahöfn.

„Almennt séð eru sértækir sjóðir dýrir í rekstri og nú þegar ávöxtunarkrafan hefur lækkað mikið, þá þurfum við að einblína meira á kostnaðinn.“

Meiri krafa á kostnaðarlækkun

Flestir lífeyrissjóðir og tryggingarfélög treysta á eignarstýringarsjóði til að stýra fjárfestingum sínum. Í kjölfar lágrar og jafnvel neikvæðrar ávöxtunarkröfu hefur krafan um að minnka kostnað aukist töluvert.

Það eru slæmar fréttir fyrir vogunar- og eignastýringarsjóði sem nú þegar eru undir þrýstingi. Hafa meira en 480 þeirra verið lagðir af síðan árið 2015 byrjaði í kjölfar minnkandi ávöxtunar.

Hvert einasta prósentubrot í kostnað skiptir máli

„Eignastýringarsjóðir sem bjóða upp á aðferðir sem auðvelt er að herma eftir fyrir mikinn kostnað, eins og vogunarsjóðir, eru að tapa spóni úr aski sínum,“ segir Tomasz Grzelak, greinandi hjá MainFirst Bank AG í Zurich.

„Með einstaklega lága ávöxtunarkröfu, eru lífeyrissjóðir að berjast fyrir hverjum einasta prósentubroti í kostnaði.“

Allt að 90% sparnaður

Að stýra eigin fjárfestingum kostar um 66% minna heldur en að notast við eignastýringarsjóði, segir Lage hjá PFA, sem er stærsti einkarekni lífeyrissjóður Danmerkur.

Í tilviki annarra eigna eins og í innviðum og vogunarsjóðum, getur það verið allt að 90% ódýrara.

Beta sjóðir eru ódýrari lausn

Hafa margir fjárfestar fært sig yfir í svokallaða beta sjóði, sem virka að sumu leiti eins og vísitölusjóðir, rukka almennt í kringum hálft prósent sem kostnað.

Er það mun ódýrara heldur en þau hefðbundnu 2% sem vogunarsjóðir rukka auk 20% af hagnaði. Lífeyrissjóðir í Bandaríkjunum hafa einnig í auknum mæli fært sig frá vogunarsjóðum.

Vogunarsjóðir skiluðu minnstri ávöxtun

Sem dæmi hefur opinberi lífeyrissjóður Massachusetts ríkis sem stýrir 60,6 milljörðum Bandaríkjadala einungis ávaxtað fé sitt sem fjárfest var í vogunarsjóðum, um 3% á síðustu 10 árum, ef kostnaðurinn er tekinn með.

Er það versta niðurstaðan af þeim 7 eignaflokkum sem sjóðurinn stýrir. Almennt var ávöxtun sjóðsins 5,7% en best stóðu sig almennar fjárfestingar í hlutabréfum, þar sem ávöxtunin var 14,4%.

Evrópska Eurekahedge vogunarsjóðavísitalan lækkaði um nálega 3% á fyrstu sex mánuðum ársins, sem er versta niðurstaðan vísitölunnar síðan byrjað var að reikna hana 1999.