Orkuveita Reykjavíkur (OR) hefur að undanförnu gripið til aðgerða innan fyrirtækisins sem miða að því að auka trúverðugleika fyrirtækisins gagnvart lánardrottnum. Nú síðast voru gerðar breytingar á stjórnendateyminu þegar Önnu Skúladóttur, sem verið hefur fjármálastjóri frá árinu 2006, var sagt upp störfum. Við starfi hennar tók Ingi Jóhannes Erlingsson. Hann hefur starfað í átta ár hjá OR og verið yfirmaður fjár- og áhættustýringar sl. fimm ár.

Að baki þessari breytingu liggur það mat að nauðsynlegt sé að gera breytingar á stjórnendateyminu til þess að byggja upp trúverðugleika í viðræðum við lánastofnanir. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa stjórnendur OR komið þeim skilaboðum til stjórnar OR á fundum að raunveruleg hætta væri á því að fyrirtækið yrði gjaldþrota ef trúverðugleiki þess gagnvart bönkum og fjármögnunarfyrirtækjum batnar ekki hratt. Helgi Þór Ingason, forstjóri OR, hefur leitt umfangsmiklar innri breytingar á fyrirtækinu sem miða að því að styrkja stöðu þess til framtíðar og efla trúverðugleika þess.

Viðbrögð við bráðavanda

Síðasta aðgerðin í áætlun sem unnið hefur verið að innan OR, sem ætlað er að bæta hag OR í viðræðum við lánardrottna, er sala á eignum. Vonir standa til þess að eignasalan muni fara langt með að útvega þá 10 til 12 milljarða sem OR þarf að greiða niður af skuldum á þessu ári. Gjalddagarnir dreifast nokkuð jafnt yfir árið en viðræður við erlenda banka, m.a. Norræna fjárfestingarbankann og Evrópska fjárfestingarbankann, hafa staðið yfir nær sleitulaust frá því að krónan féll með skelfilegum afleiðingum fyrir OR, þar sem skuldir voru að miklu leyti í erlendri mynt og tekjur að mestu í krónum. Ekki hefur enn fengist nægilega mikil lánafyrirgreiðsla til þess að koma OR út úr vanda.

Eignir sem til stendur að selja eru m.a. Perlan, jarðeignir við Úlfljótsvatn, lóðir í Hvammsvík í Kjósarhreppi og Berserkseyri á Snæfellsnesi.

Þá stendur einnig til að selja fasteignir á borð við Hótel Hengil, sem er í starfsmannahúsi á Nesjavöllum, og síðan fasteignir í Elliðaárdal. Auk þess yrðu eignir Or í HS Veitum og Landsneti seldar. Þá eru einnig uppi áform um að selja höfuðstöðvar fyrirtækisins að Bæjarhálsi 1 til Reykjavíkurborgar, sem OR myndi síðan leigja af borginni. Með þessu tækist að bæta stöðuna á pappírunum en þó ekki mikið meira en það, þar sem Reykjavíkurborg er eigandi 95% hlutafjár í OR og þannig í ábyrgðum fyrir skuldbindingum OR ef í harðbakkann slær.

Söluferlið verður gagnsætt samkvæmt áætlun OR og verða allar eignir auglýstar til sölu og að lokum seldar hæstbjóðanda.


Orkuveita Reykjavíkur graf
Orkuveita Reykjavíkur graf
© None (None)

Aðgerðaáætlun

Unnið hefur verið eftir stífri áætlun undanfarna mánuði. Hún hefur miðað að því að styrkja grunnreksturinn, lækka kostnað og auka trúverðugleika fyrirtækisins í viðræðum við lánardrottna eins og áður sagði. Í því skyni að styrkja grunnreksturinn hefur gjaldskrá fyrirtækisins verið hækkuð um 28% á skömmum tíma og grunnrekstrarkostnaður hefur verið lækkaður um 25%, þótt þær aðgerðir hafi ekki komið til áhrifa í efnahag OR nema að hluta ennþá. Um 65 starfsmönnum var sagt upp fyrir áramót og er því drjúgur hluti þeirra enn á launaskrá.

Þá hefur einnig verið ákveðið að OR muni ekki greiða eigendum sínum arð á næstunni. Í áætlun fyrir árin 2011 til 2015 er ekki gert ráð fyrir að OR greiði arð til eigenda sinna á þeim tíma en það getur komið til endurskoðunar frá ári til árs. Akranesbyggð (4%) og Borgarbyggð (1%) eru eigendur OR ásamt Reykjavíkurborg.

Virkjanaframkvæmdir eru líka að hluta til endurskoðunar, þ.e. með hvaða hætti ráðist verður í Hverahlíðarvirkjun. Kostnaður OR vegna þeirrar virkjunar, sem enn er ekki risin, er þegar orðinn um fimm milljarðar króna og má rekja hann til túrbínukaupa og undirbúningsvinnu. Ekki er þó ljóst enn hvernig virkjunin verður fjármögnuð en til greina kemur að gera það í gegnum svonefnda verkefnafjármögnunarleið þar sem einkaaðilar koma að byggingu virkjunarinnar með eiginfjárframlagi en þynnast svo út sem eigendur á löngum tíma, á grundvelli umsaminnar ávöxtunar. Engar lokaákvarðanir hafa verið teknar um þessi mál og bíða þær þess að fjármögnunarvandi fyrirtækisins verði leystur.

Jón Gnarr verður borgarstjóri
Jón Gnarr verður borgarstjóri
© BIG (VB MYND/BIG)

Hart deilt um OR í borgarstjórn

J ón Gnarr , borgarstjóri Reykjavíkur, sagði á borgarstjórnarfundi á þriðjudag að Orkuveita Reykjavíkur væri í „gífurlega miklum vanda“ fjárhagslega. Þetta kom fram í máli Jóns þegar hann svaraði spurningum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur , oddvita Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, er vörðuðu ummæli stjórnarformanns OR, Haraldar Flosa Tryggvasonar , í Morgunblaðinu fyrr í vikunni.

Sagði Hanna Birna það alvarlegt mál ef þau sjónarmið, sem Haraldur Flosi reifaði, réðu för í fyrirtækinu. Í Morgunblaðinu var haft eftir Haraldi að hann teldi „að borgaraábyrgð sem tryggt hefur greiðan aðgang að ódýru fjármagni hafi stuðlað að óheppilegri fjárfestingargleði“.

Jón sagði að ummæli Haraldar Flosa væru hugsanlega óheppileg, en þau hefðu þó, að hans mati, verið rangtúlkuð.

Kjartan Magnússon , borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði að ummæli Haraldar Flosa hefðu þegar valdið titringi í viðkvæmum viðræðum við erlenda banka. Kjartan sagði að ekki væri hægt að umgangast OR af einhverri léttúð. Þá gagnrýndi Sóley Tómasdóttir , borgarfulltrúi VG, meirihluta Samfylkingarinnar og Besta flokksins fyrir að vinna ekki eftir skýrri stefnu í OR. Það væri algjörlega óviðeigandi að gera breytingar á eignarhaldi fyrirtækisins á þessum tíma.