Vegna dráttar á samningsbundnum greiðslum til Reykjaneshafnar hefur höfnin óskað eftir fjármögnun hjá Reykjanesbæ til að geta staðið skil af skuldbindingum sem eru á gjalddaga 15. október næstkomandi. Í tilkynningu til Kauphallarinnar segir að vegna yfirstandandi vinnu við fjárhagslega endurskipulagningu Reykjanesbæjar sé óvíst hvort bærinn geti fjármagnað greiðslurnar. Því geti komið til greiðslufalls hjá Reykjaneshöfn.

Viðskiptablaðið fjallaði nýlega ítarlega um fjárhagsstöðu Reykjaneshafnar . Þar kom meðal annars fram að eigið fé hafnarinnar hafi verið neikvætt um 4,5 milljarða króna í lok síðasta árs. Nýjar lántökur Reykjaneshafnar frá 2005 til 2014 voru 2,8 milljarði króna meiri en afborganir hafnarinnar af skuldum sínum. 1,8 milljarður þessara lána fóru í fjárfestingar. Tæpur milljarður fór í að fjármagna nær stöðugan hallarekstur félagsins.

Vilja 19 ára gamlan veg endurgreiddan úr ríkissjóði

Í nýjasta tímablaði Viðskiptablaðsins, sem kom út í gær, er síðan fjallað um þá beiðni Reykjanesbæjar til stjórnvalda að fá 2,6 milljarða króna framlag úr ríkissjóði á næstu fimm árum til þess að ljúka uppbyggingu Helguvíkurhafnar. Höfnin leggur til að hún leggi sjálf 1,3 milljarða króna í verkefnið.

Reykjaneshöfn óskar eftir 179 milljónum króna úr ríkissjóði vegna um eins kílómeters langs vegar frá Garðskagavegi niður að hafnarbakkanum í Helguvíkurhöfn. Vegurinn var lagður fyrir 19 árum síðan. Um er að ræða reiknaðan framkvæmdakostnað sambærilegs vegar í dag, en það er mat Reykjaneshafnar að vegurinn ætti að flokkast sem stofnvegur og að hann ætti því að vera á forræði ríkisins.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir hins vegar að stofnunin hafi aldrei greitt fyrir veg sem tekinn er yfir af sveitarfélagi. Nema um sé að ræða ferjuhöfn nái þjóðvegir að hafnarsvæði, en ekki að hafnarbakka.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .