Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair Group segir að til greina komi að fresta sölu á þremur vélum félagsins og vísar í fækkun véla og flugferða Wow air að því er Morgunblaðið segir frá. Eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá hefur Wow air tilkynnt um helmingun flota síns sem dregur mjög úr framboði ferða til og frá landinu.

Bogi segist ekki trúa því að þetta muni leiða til mikillar fækkunar ferðamanna hingað til lands á næsta ári. „Nei. Ég hef enga trú á því. Við munum bæta við okkur og einhver önnur flugfélög einnig þannig að ég hef ekki trú á því að það verði mikið högg,“ segir Bogi sem segir ekki tímabært að auka framboð til fjarlægari áfangastaða.

„Við höfum skoðað flug til Indlands en ákváðum fyrir ári að fara ekki þangað að sinni.“ Á öðrum fjarlægari áfangastöðum, eins og í Norður Ameríku hyggst Bogi leggja áherslu á að flugvélar fyrirtækisins bíði sjaldan á völlum yfir nótt.

„Þetta felur í sér aukna og betri nýtingu flugflotans. Miðað við grunnvöxt væri hann um 9% hjá okkur en með núverandi innviðum og flota teljum við okkur geta bætt við 14% ofan á það,“ segir Bogi.

„Vélarnar hafa verið mikið á flugi en á síðustu árum hefur það minnkað vegna þess að við höfum verið að fjölga fjarlægari áfangastöðum í Ameríku þar sem vélarnar standa óhreyfðar yfir nótt. Nú ætlum við, með breyttu kerfi, að láta vélarnar halda í auknum mæli strax til baka og bjóða upp á brottfarir kl. 10.30 að morgni til Evrópu.“

Félagið hafði gert ráð fyrir að með 6 nýjum vélum sem bætast í flota félagsins á næsta ári fari flugflotinn úr 33 í 36, því á sama tíma átti að fækka um þrjár. Nú gæti breyttar aðstæður á markaði því haft áhrif á þær áætlanir.