Framleiðsluslakinn í þjóðarbúinu er nánast horfinn og það er að myndast spenna í hagkerfinu að sögn Daníels Svavarssonar, forstöðumanns hagfræðideildar Landsbankans. Vegna stóriðjuáforma er hætta að svipaðri þenslu og var þegar Kárahnjúkavirkjun var í byggingu.

Fyrir skömmu gaf hagfræðideild Landsbankans út þjóðhagsspá þar sem stóra breytingin var sú að á næsta ári er spáð 5,5% hagvexti sem er ríflega tvöfalt meiri hagvöxtur en bankinn spáði í nóvember á síðasta ári. Þá spáir bankinn því að árið 2016 verði hagvöxtur 3,4% en ekki 1,7% eins og spáð var í nóvember.

Daníel segir að í þessari nýju spá hafi verið tekið tillit til mikils vaxtar í einkaneyslu og íbúðafjárfestingu en einnig stórframkvæmda, en næstu árum er meðal annars stefnt að því að reisa fjórar  fjórar kísilverksmiðjur á Íslandi. Það eru verksmiðja PCC á Bakka við Húsavík, verksmiðja United Silicon í Helguvík, verksmiðja Thorsil einnig í Helguvík og verksmiðja Silicor Materials á Grundartanga.

Öll stefna þessi fyrirtæki að því að hefja framleiðslu á árunum 2016 til 2017 og samanlögð fjárfesting vegna þeirra nemur tæpum 150 milljörðum króna.

Úr álinu í kísilinn

"Menn eru svolítið að fara úr álinu í kísilinn," segir Daníel. "Í nýju spánni tókum við inn tvær framkvæmdir sem við vorum ekki með inni í nóvember en það er verksmiðja United Silicon í Helguvík og PCC á Bakka. Miðað við stöðuna í dag eru þetta þau verkefni sem allt lítur út fyrir að verði að veruleika enda búið að gera orkusamninga og semja við ríkið. Þetta þýðir að verkefnið á Grundartanga, sem er gríðarlega stórt og Thorsil í Helgvík eru ekki inni í okkar spá."

Silicor Materials er lang stærsta verkefnið með heildarfjárfestingu upp á 77 milljarða króna. Samkvæmt heimildum blaðsins gera áætlanir ráð fyrir að meginþungi fjárfestingarinnar verði árin 2015 og 2016 eða 80% hennar.

Daníel segir að að teknu tilliti til þess að þessar tvær stóru framkvæmdir, Silicor Material og Thorsil, séu ekki inni í spánni telji bankinn að óvissan snúi fyrst og fremst að því hversu mikill hagvöxturinn verði frekar en hversu lítill. Tekur hann sem dæmi að ef ráðist verði í framkvæmdirnar á Grundartanga gætu hagvaxtaráhrifin af þeirri framkvæmd orðið 4 til 5% á meðan framkvæmdir standi sem hæst.

Framleiðsluslakinn horfinn

"Bara miðað við að PCC og United Silicon fari af stað á næstu þremur árum þá þýðir það 5 til 6 prósenta hagvöxt á næsta ári og kannski tæplega 4 prósenta hagvöxt árið 2016," segir Daníel. "Framleiðsluslakinn í þjóðarbúinu er eiginlega horfinn þannig að það er að myndast spenna aftur enda stefnir atvinnuleysi í 3,5 prósent."

Ef ráðist verður í byggingu allra fjögurra kísilverksmiðjanna á næstu tveimur til þremur árum er ljóst að 1.300 manns munu samanlagt vinna við framkvæmdirnar. Síðan bætist við þennan fjölda ef ráðist verður frekari virkjanaframkvæmdir. Til samanburðar störfuðu um 1.500 manns við Kárahnjúkavirkjun þegar sú framkvæmd stóð sem hæst.

"Við megum ekki við tveimur stórum verkefnum í viðbót án þess að fáum að finna fyrir svipuðum þensluáhrifum og voru þegar Kárahnjúkavirkjun var í byggingu," segir Daníel og vísar til kísilverksmiðja Silicor Materials á Grundartanga og Thorsil í Helguvík.  "Það er reyndar líklegt að stór hluti af vinnuaflinu verði innfluttur og að því leyti er vinnumarkaðurinn á Íslandi svolítið teygjanlegur. Það er aftur á móti ansi hætt við að þetta myndi ýta launum og kostnaði upp á við.

Við megum heldur ekki gleyma því að þetta er ekki einu verkefnin framundan, því auk kísilverksmiðjanna hefur verið rætt um ýmiss minni verkefni eins og sólarkísilver, kaplaverksmiðju, vatnsverksmiðju, kalkþörungaverksmiðju og líftæknisverksmiðju svo eitthvað sé nefnt. Við erum ekki með þessu minni verkefni inni í okkar spám heldur."

Við þetta má bæta að verði ráðist í virkjanaframkvæmdir á þessum tíma, svo ekki sé talað um tvöföldun Hvalfjarðarganga eða lagningu Sundabrautar er hætta á að það auki enn á þensluna.

Kísilverkefnin mislangt komin

Kísilverkefnin eru mislangt komin. Stjórnvöld hafa gert ívilnunarsamninga við þrjú af þessum fyrirtækjum eða PCC, United Silicon og Thorsil. Viðræður eru í gangi við Silicor Materials og samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins liggja fyrir drög að samningi og aðeins formsatriði að ganga frá honum.

Tvö af þeim fjóru fyrirtækjum sem hyggjast reisa kísilverksmiðjur hér á landi hafa þegar gert orkusamninga við Landsvirkjun en það eru United Silicon og PCC og  því mætti ætla að þau verkefni séu lengst komin. Hin tvö fyrirtækin eru langt komin í sínum viðræðum. Silicor Material hefur bæði átt í viðræðum við Landsvirkun og Orku náttúrunnar (ON),  sem er nýtt opinbert hlutafélag í eigu Orkuveitu Reykjavíkur. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur fyrirtækið þegar fengið vilyrði um orku frá ON.

Thorsil á í viðræðum við Landsvirkjun og samkvæmt heimildum blaðsins hefur fyrirtækið fyrirheit frá Landsvirkjun um orku, en spurningin er bara hvenær hún verður tilbúin.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu 5. júní. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .