Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar (SFO) hefur hætt rannsókn sinni á auðjöfrinum Robert Tchenguiz og viðskiptum hans við Kaupþing í aðdraganda bankahruns. Breska dagblaðið Financial Times greinir frá málinu og segir efnahagsbrotadeildina líklega senda frá sér formlega tilkynningu um málalokin síðar í dag.

Tchenguiz var viðskiptavinur Kaupthing Singer & Friedlander, banka Kaupþings í Bretlandi og stórtækasti lántakandi bankans. Hann var jafnframt stjórnarmaður í Exista, stærsta eiganda bankans.

Hann var handtekin ásamt bróður sínum Vincent í rannsókn efnahagsbrotadeildarinnar í mars í fyrra og færður til yfirheyrslu. Lögreglan lét mál sitt á hendur VIncent niður falla fyrr á árinu þegar upp komst um galla á forsendum rannsóknarinnar. Rannsókninni á hendur Robert var hins vegar haldið áfram.