Bandaríski seðlabankinn tilkynnti í dag að hann hefði hætt magnaðgerðum sínum (e. quantitive easing) sem felast í kaupum á skuldabréfum.

Ákvörðunin ber vott um að aukið traust sé á efnahagslífi í Bandaríkjunum þrátt fyrir að sömu sögu sé ekki að segja alls staðar í heiminum. Stefnunefnd seðlabankans segist greina undirliggjandi styrk í bandarísku hagkerfi sem ætti að varða veginn að lágu atvinnuleysi og stöðugu verðlagi. Slaki í bandarísku efnahagslífi sé nú hægt og rólega að hverfa.

Ákvörðunin var tilkynnt í kjölfar slæmra frétta af efnahagsástandi í Evrópu og tvísýnna horfa í efnahagslífi heimsins. Bandaríski seðlabankinn hafði á undanförnum mánuðum dregið úr skuldabréfakaupum.