*

föstudagur, 25. september 2020
Erlent 13. október 2019 19:45

Hætta þátttöku í útgáfu Libra

Visa, Mastercard, eBay og Stripe hafa slegist í hóp PayPal og hætt við þátttöku í útgáfu rafeyris Facebook, Libra.

Ritstjórn
Eftir brotthvarf greiðsluþjónustufyrirtækjanna nú, auk PayPal í upphafi mánaðar, er aðeins eitt slíkt eftir í samtökunum.
Aðsend mynd

Visa, Mastercard, eBay og Stripe hafa dregið sig út úr samtökum um útgáfu rafeyrisins Libra, sem Facebook setti á laggirnar og hefur verið í forsvari fyrir. Financial Times segir frá.

Ákvörðun fyrirtækjanna fjögurra fylgir á hæla samskonar tilkynningar PayPal í upphafi mánaðar, en auk þeirra er greiðsluþjónustufyrirtækið Mercado Pago hætt við. Aðeins eitt greiðsluþjónustufyrirtæki stendur eftir, hið hollenska PayU.

Hinum fyrirhugaða rafeyri – sem Facebook sér fyrir sér sem alþjóðlegan gjaldmiðil – hefur verið tekið heldur illa af yfirvöldum beggja vegna Atlantshafsins, sem hafa fundið honum allt til foráttu. Áhyggjur þeirra varða meðal annars persónuverndarmál og möguleikann á peningaþvætti. 

Forsvarsmenn Facebook og Libra hafa ítrekað mætt fyrir þingnefndir vestanhafs til að svara hinum ýmsu spurningum þingmanna um verkefnið, og í síðasta mánuði var blátt bann lagt við notkun hins nýja rafeyris í Þýskalandi og Frakklandi.

Libra-samtökin, sem telja fjölda stórfyrirtækja auk stofnmeðlimarins, Facebook, þökkuðu hinum fráfarandi fyrirtækjum stuðninginn við markmið verkefnisins.

Stikkorð: Visa Mastercard eBay Libra Stripe