Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sagði í viðtali í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni að þróunin í efnahagsmálum væri öll í rétta átt. Breytt stefna nýrra stjórnvalda væri farin að skila sér. Búið væri að undirbúa jarðveginn fyrir fjárfestingar.

„Á öllum sviðum samfélagsins er verið að vinna að því að gera löggjöfina þannig úr garði að fyrirtækin fái þrifist, geti fjölgað starfsfólki, geti fjárfest og geti borgað hærri laun."

Spurður hvort ný stjórn hafi ekki tekið við góðu búi frá Samfylkingunni og Vinstri grænum og væri að njóta ávinnings af vinnu fyrir stjórnar, hvort uppsveiflan hafi í raun ekki verið byrjuð, svaraði Sigmundur Davíð:

„Það er lítið til í þessu. Síðasta ríkisstjórn var búinn að vera tala um það síðan 2010 að uppsveiflan væri að hefjast en það gerðist aldrei. Aðalatriðið, þegar við horfum á stóru myndina, er að við bentum á hvað þyrfti til við að snúa þróuninni við. Hvers vegna Ísland væri fast í algjörri stöðnun. Fjárfesting var allt síðasta kjörtímabil í sögulegu lágmarki, fólk flutti þúsundum saman til útlanda. Við bentum á hverju þyrfti að breyta."

Sigmundur Davíð sagði að það sem hefði ollið viðsnúningi í hagvextinum haustið 2013 hefði verið sú staðreynd að ný ríkisstjórn hafi tekið við. Stjórn sem hefði lagt áherslu á pólitískan stöðugleika og innleitt hvata en ekki hindranir í viðskiptalífið.

„Nú þurfa menn allt í einu að huga að því að hér sé hætta á þenslu frekar en kreppu. Það er hætta á þenslu og stjórnvöld eru mjög meðvituð um það núna og þess vegna munum við áfram þurfa að gæta töluverðs aðhalds við fjárlagagerðina fyrir næsta ár þrátt fyrir þessar auknu tekjur og auknu umsvif. Það er nú líka vegna þess að skuldir ríkisins eru þrátt fyrir allt alltof miklar. Við erum að borga í kringum 70 milljarða á ári í vexti.

Við þurfum líka að halda aftur af útgjöldum ríkisins vegna þessarar þenslu sem er að fara af stað sem er þó óneitanlega skemmtilegra verkefni að eiga við heldur en að reyna að komast upp úr kreppu, komast upp úr stöðun. Eftir langt tímabíl án fjárfestingar, tímabil þar sem menn þorðu ekki að fjárfesta vegna þess að löggjöfin breyttist öll í öfuga átt, 200 skattabreytingar í öfuga átt, hindranir í staðinn fyrir hvata.

Sigmundur Davíð segir að vegna þessa hafi safnast upp mikil þörf fyrir fjárfestingar.

„Sú þörf mun koma fram núna á næstu árum og mikilvægt að stjórnvöld geri það sem þau geta til að laga hagkerfið að því," sagði Sigmundur og benti á að á þessum tíma væri mikilvægt að stjórnvöld fjárfestu ekki mikið.  Hann segir mjög mikilvægt að lífeyrissjóðirnir, sem séu með mjög stóran hluta af lausu fjármagni í landinu, komi að því að búa til eitthvað nýtt en ekki kaupa og selja hlutabréf í fyrirtækjum sem þau eiga.