Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins um endurreisn íslenskra fyrirtækja er þeirri spurningu velt upp hvort hætta sé á því að Ísland upplifi „týndan áratug“ rétt eins og Japanir gerðu á tíunda áratug síðustu aldar. Ein af ástæðunum fyrir þessum týnda áratug Japana hafi verið sú að bankar hafi ekki lokað á fyrirtæki með lán í vanskilum eða gripið til endurskipulagningar, heldur var lánstími framlengdur og fyrirgreiðslur auknar.

Í skýrslunni segir að vissulega sé staðan hér ekki sú sama. Í Japan hafi bankarnir farið svona að ráði sínu til að þurfa ekki að sýna fram á útlánatap, en hér séu bankarnir þegar fallnir. Hins vegar sé mikil skuldsetning fyrirtækja hættuleg og geti leitt til stöðnunar til lengri tíma. Fyrirtæki megi ekki vera svo skuldsett að þau geti vart sinnt nauðsynlegum fjárfestingum.