Fyrirhugað áætlunarflug Iceland Express til Bandaríkjanna næsta sumar verður blásið af nú þegar Wow air hefur eignast rekstur félagsins.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag hefur Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi Wow air, keypt rekstur Iceland Express af Pálma Haraldssyni. Iceland Express verður í kjölfarið lagt niður í núverandi mynd og allt áætlunarflug félagsins fer fram undir merkjum Wow air.

Iceland Express kynnti í byrjun september sl. sumaráætlun sína fyrir næsta sumar. Þar kom fram að félagið hygðist fljúga á ný til Boston í Bandaríkjunum en Iceland Express flaug áður til Bandaríkjanna árin 2010 og 2011. Þá kom jafnframt fram að áfangastöðum í Evrópu yrði fækkað um sex en um leið yrði tíðni aukin á þá staði sem flogið verður á miðað við það sem áður var. Nýir áfangastaðir í Evrópu verða Osló í Noregi og Frankfurt-Main í Þýskalandi.

Skúli Mogensen sagði í samtali við Viðskiptablaðið fyrr í dag að ekki yrði flogið til Boston næsta sumar og það væri ekki á áætlun að hefja flug til Bandaríkjanna enn sem komið er. Þess í stað myndi félagið einbeita sér að þeim áfangastöðum sem þegar er flogið til eða áætlað er að fljúga til í Evrópu í vetur og næsta sumar.