Samfélagsmiðillinn OnlyFans hefur bakkað með fyrirætlanir sínar um að úthýsa klámfengnu efni af miðlinum. Þetta var kunngjört á Twitter-síðu miðilsins fyrr í dag. Sagt er frá á vef BBC .

OnlyFans skaust upp á stjörnuhimininn nýverið en þar geta notendur keypt áskriftir og greitt fyrir aðgang að efni framleiðenda. Miðillinn sjálfur tekur fimmtungsþóknun til sín. Framboðið er jafn misjafnt og mannfólkið er margt en eftir því sem á hefur liðið hefur færst í aukana að einstaklingar og pör hafi tekjur af miðlinum með því að setja þangað inn klámfengið efni.

Í liðinni viku tilkynnti miðillinn að hann hygðist úthýsa klámi frá og með 1. október næstkomandi. Ástæðan væri meðal annars þrýstingur frá fjárfestum. Þá hefði miðillinn upphaflega verið hugsaður fyrir áhrifavalda og fræga einstaklinga til að hafa tekjur af því að veita innsýn inn í líf sitt en klámið síðan tekið yfir. Þótt klámið yrði bannað átti áfram að leyfa erótískt efni.

Breytingin mætti umtalsverðri andstöðu meðal aðila sem nýtt höfðu vefinn til að koma framleiðslu sinni á framfæri. Baráttufólk fyrir réttindum þeirra sem starfa í kynlífsiðnaði benti síðan á að breytingin þýddi að framleiðendur myndu missa sjálfstæði sitt. Það er, í stað þess að geta framleitt eigið efni á eigin forsendum yrði það að leita annað þar sem það væri jafnvel upp á náð annarra komið.

Í faraldrinum fjölgaði notendum OnlyFans mjög, um 75% samkvæmt tölum miðilsins, og voru mörg sem sóttu hann einmitt með það að marki að nálgast klám. Einhverjir framleiðendur gáfu út að þeir myndu yfirgefa miðilinn ef klámbannið tæki gildi og virðist það hafa haft áhrif á ákvörðunina enda viðbúið að tekjur myndu falla ella.