Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í síðustu viku að ungverks stjórnvöld hygðust leggja skatt á gagnaflutning í gegnum netið og var lagt fram frumvarp þess efnis á ungverska þinginu. Fól frumvarpið í sér að hver netnotandi skyldi greiða 150 forintur, jafngildi um 70 íslenskra króna, fyrir hvert gígabæt sem hlaðið væri niður.

Þessi áform hafa mátt sæta mikilli gagnrýni meðal almennings í Ungverjalandi og nokkrum klukkustundum eftir að fréttir um frumvarpið bárust út höfðu yfir 100 þúsund manns skráð sig í hóp á Facebook til þess að mótmæla lagasetningunni.

Nú hafa yfirvöld í Ungverjalandi hins vegar fallið frá þessum áformum eftir mikil mótmæli almennings, sem safnast hafa saman að undanförnu í Búdapest, höfuðborg landsins. Tilkynnti Viktor Orban, forsætisráðherra landsins, í morgun að skatturinn yrði ekki lagður á.