Byggingarfyrirtækið Yuexiu Property, sem er í eigu kínverska ríkisins, er hætt við tæplega 220 milljarða króna kaup á höfuðstöðvum kínverska fasteignarisans Evergrande. Yuexiu var nálægt samkomulagi um kaup á 26 hæða byggingunni, sem staðsett er í Hong Kong, en stjórn félagsins hætti við vegna áhyggna af því að fjárhagsvandræði Evergrande myndu koma í veg fyrir hnökralaus viðskipti. Reuters greinir frá.

Evergrande, sem skuldar yfir 300 milljarða Bandaríkjadala, hefur ekki staðið skil á þremur vaxtagreiðslum á alþjóðlegum skuldabréfum.

Fasteignarisinn hefur átt í kappi við að selja eignir í ljósi lausafjárvandræðanna. Viðræður um sölu á 51% hlut í fasteignarekstrarfélaginu Evergrande Property Services eru sagðar á lokastigi. Talið er að kaupverðið muni hljóða upp á 20 milljarða Hong Kong dali, eða sem nemur um 330 milljörðum króna.