Ríkisstjórnin samþykkti í morgun tillögu Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra um að falla frá samningi við Norðmenn um kaup á nýrri björgunarþyrlu sem gerður var 30. nóvember árið 2007.

Ástæða þess að hætt er við kaupin er aðhald í ríkisútgjöldum. Í staðinn áformar ríkisstjórnin að bjóða út langtímaleigu á tveimur þyrlum til viðbótar við núverandi þyrlu Landhelgisgæslunnar. Gangi það eftir verða þrjár þyrlur hjá Gæslunni.

Í tíð Björns Bjarnasonar, þáverandi dómsmálaráðherra, var skrifað undir samning við Norðmenn um sameiginleg kaup á björgunarþyrlum. Norðmenn hafa þó ekki sjálfir farið út í þau umræddu kaup og sem fyrr segir hefur nú verið fallið frá þeim áformum af núverandi ríkisstjórn.

Fram kemur í tilkynningu að uppsögn samstarfssamningsins um kaup á björgunarþyrlum hafi ekki áhrif á hina almennu samstarfsyfirlýsingu landanna í öryggis- og varnarmálum sem undirrituð var 26. apríl 2007.