*

sunnudagur, 28. nóvember 2021
Innlent 22. maí 2019 16:03

Hætta við milljarðakaup í Heimavöllum

Félagið AU 3 ehf. hefur fallið frá kaupum á allt að 27% hlut í Heimavöllum eftir að Kauphöllinni hafnaði því að afskrá félagið.

Ritstjórn
Arnar Gauti Reynisson, framkvæmdastjóri Heimavalla.
Haraldur Guðjónsson

Félagið AU 3 ehf. hefur fallið frá kaupum á allt að 27% hlut í Heimavöllum sem greiða átti allt að fjóra milljarða króna fyrir. Kaupin voru með þeim fyrirvara að Heimavellir yrðu teknir af markaði. Kauphöll Íslands hafnaði beiðni félagsins um að það yrði tekið af markaði, en 81% hluthafa Heimavalla hafði samþykkt afskráninguna. Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í apríl að samþykki hærra hlutfalls hluthafa þyrfti svo Kauphöllin gæti fallist á afskráningu.

AU 3 ákváðu því að framlengja gildistíma tilboðsins sem upphaflega átti að renna út 6. maí til 24. maí. Nú liggi hins vegar fyrir að félagið hefur ákveðið að falla frá tilboðinu þar sem ljóst þykir að ekki verið af afskráningu að sinni. „Nú liggur fyrir að forsendur eru ekki til þess að falla frá þeim skilyrðum sem sett voru í tilboðinu, þannig mun ekki verða af því að AU 3 ehf. eignist hlutabréf á grundvelli tilboðsins,“ segir í tilkynningu frá Heimavöllum.

Að AU 3 stóð framtakssjóðurinn Alfa, félög í eigu fjárfestanna Finns R. Stefánssonar og Tómasar Kristjánssonar, ásamt Vörðu Capital ehf. og Eignarhaldsfélaginu VGJ ehf. Frá skráningu Heimavalla á markað í maí í fyrra hefur markaðsvirði félagsins verið talsvert lægra en bókfært eigið fé félagsins.

Stikkorð: Heimavellir AU3