Eykon Energy hefur dregið umsókn sína um olíuleit á norskum landgrunni til baka. Fyrirtækið hefur sent olíu- og orkumálaráðuneyti Noregs bréf þess efnis, að því er fram kemur á norska miðlinum Offshore. Ástæðan er sögð vera breytt stefna Eykon.

Eykon sóttu um sérleyfi til olíuleitar á norskum landgrunni fyrir um ári síðan. Eykon hefur nú þegar sérleyfi til olíuleitar á íslenska Drekasvæðinu, ásamt kínverska fyrirtækinu CNOOC og norska fyrirtækinu Petoro.

Gunnlaugur Jónsson, forstjóri Eykon, segir í samtali við Vísi í dag að fyrirtækið ætli að einbeita sér að íslenska Drekasvæðinu og vilji ekki dreifa kröftunum. Því sé þó haldið opnu að fara síðar í olíuleit í Noregi.