*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Innlent 16. febrúar 2019 12:01

Hætta við risahótelið á Grensásvegi

Á lóð gömlu hitaveitunnar átti að að reisa 300 herbergja hótel en þar verða í stað allt að 180 minni íbúðir.

Höskuldur Marselíusarson
Í stað einnar 10 milljarða framkvæmdar, sem fyrst var hugsuð fyrir skrifstofur, síðar hótel, en nú minni íbúðir, er nú búið að skipta framkvæmdinni upp í fjóra áfanga á um 2,5 milljarða hvern.
Aðsend mynd

Í stað 300 herbergja hótels á Grensásvegi 1 verða reistar um 180 minni íbúðir á tæplega 20 þúsund fermetrum því lánabækur bankanna til hótelbygginga voru fullar. Áfram er þó hægt að taka hluta hússins undir um 130 herbergja hótel.

Áætlanir um byggingu 300 herbergja hótels á horni Suðurlandsbrautar og Grensásvegar, þar sem Hitaveita Reykjavíkur og síðar Mannvit voru til húsa, hafa verið slegnar af í þeirri mynd. Þess í stað verða þar reistar um 180 tveggja til þriggja herbergja minni íbúðir, í 15.630 fermetrum á annarri til fimmtu hæð. Þó er enn mögulegt að breyta hluta af rýminu í minna hótel. Einnig verði þar á jarðhæð um 3.660 fermetra verslunar- og atvinnuhúsnæði, svo samtals mun 19.290 fermetra byggingarmagn rísa á lóðinni á næstu þremur árum. 

Átti að verða stærsta hótel landsins

Þegar áætlanirnar um hótelið voru birtar 2017, var boðað að hótelið yrði það stærsta á landinu í  fermetrum og með næstflest herbergi, og þá einungis Fosshótel á Höfðatorgi verið með fleiri. Jón Þór Hjaltason, stjórnarformaður Fasteignafélagsins G1 sem á lóðina, segir verkefnið lið í uppbyggingu Skeifunnar en þar áætli borgarstjórn allt að 750 íbúðir til viðbótar við núverandi verslanir og þjónustu. 

„Upphaflega var Mannvit búið að teikna skrifstofuhúsnæði þarna, en það þótti ekki fýsilegt að byggja skrifstofuhúsnæði á þeim tíma svo við gerðum fyrirspurn fyrir hótel og létum teikna það upp. Hótelið var áætlað sem 10 milljarða framkvæmd en þetta var slæmur tími til að fara með hugmyndir að uppbyggingu hótela inn í bankana, því þeir voru búnir að fylla hjá sér lánakvótana af hótelum, auk þess sem þetta var gríðarlega stórt verkefni,“ segir Jón Þór. 

„Við vorum komnir með mjög sterka erlenda keðju sem bara bíður á kantinum og vill endilega opna, en það verður aldrei í þessari mynd sem fyrst var lagt upp með. Við tókum þessu bara rólega og reyndum að lesa í markaðinn svo við gætum þróað reitinn sem best. Fyrir tveimur mánuðum sendum við fyrirspurn inn í skipulag um að breyta þessu í fjóra áfanga, þar sem væru íbúðir á annarri til fimmtu hæð, en atvinnuhúsnæði, verslanir eða bankar eða annað á jarðhæð, og var gefið grænt ljós á að halda áfram að þróa þessa hugmynd. Við settum þó inn í lýsinguna heimild til að breyta hluta af einum áfanganum aftur í hótel með um 120 til 130 herbergi, þegar lengra líður á verkefnið, því staðsetningin væri mjög góð fyrir hótelrekstur.“ 

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.