Eigendur Icelandair Group, sem er eigandi Iceland Travel ehf. og eigendur Allrahanda GL ehf, sem rekur ferðaþjónustu undir merkjum Gray Line, hafa ákveðið að slíta samningaviðræðum um sameiningu félaganna. Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um það 9. ágúst síðastliðinn að félögin hefðu ákveðið að sameinast, þannig að Icelandair Group myndi eignast 70% í sameinuðu félagi.

Samruninn var sagður háður samþykki samkeppnisyfirvalda auk niðurstöðu áreiðanleikakannana sem nú er lokið. Hefur að þeim loknum verið ákveðið að samruninn muni ekki ganga eftir. Viðskiptablaðið flutti fréttir um að stefnt yrði með hið sameinaða félag á markað.

Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandair Group sagði í samtali við Viðskiptablaðið á sínum tíma að einna helsti kosturinn við sameininguna væri samþætting í bókunarkerfum og öðrum stafrænum þáttum sem myndu draga úr handavinnu.