*

þriðjudagur, 27. október 2020
Innlent 16. nóvember 2018 18:02

Hætta við sölu til Icelandair

Vegna leka frá stjórnvöldum verður SATA International, ríkisflugfélag Azóreyja, ekki selt til Loftleiða í bili.

Ritstjórn
Loftleiðir er dótturfélag Icelandair Group sem einbeitir sér að leiguflugi ýmis konar.

Heimastjórn Azoreyja í Portúgal hefur hætt við sölu á 49% hlut í ríkisflugfélagi eyjanna, SATA International. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá var Loftleiðir, dótturfélag Icelandair Group það eina sem komst í gegnum fyrstu umferð einkavæðingarferlisins, en fékk hálfs árs frest til að gera tilboð.

Ástæðan fyrir að hætta við söluna er sögð sú að gögn um söluferlið sem deilt var með héraðsþingnefnd á eyjunum láku í fjölmiðla. Erlendur Svavarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Loftleiða, segir félagið hafa uppfyllt öll skilyrði útboðsins.

„Við töldum okkur þurfa frekari gögn, en þau höfðu ekki borist þegar þeir síðan hætta við,“ segir Erlendur. „Við gerum ráð fyrir að sú vinna sem við höfum lagt í þetta sé unnin fyrir gýg í bili en ef þeir byrja aftur verða væntanlega allt aðrar forsendur fyrir nýju útboði. Við tækjum málefnalega afstöðu og gott samtal við þá ef af því verður.“

Icelandair Group tilkynnti um það í byrjun mánaðarins að það hyggðist kaupa íslenska félagið Wow air en fjárhagsstaða félagsins hefur verið erfið. Flugfélag Azóreyja er ekki eina félagið í suðurhöfum sem félagið hefur skoðað kaup á. Jafnframt hefur verið til skoðunar kaup á ríkisflugfélagi Grænhöfðaeyja, en Loftleiðir hafa tekið að sér endurskipulagningu á þessari fyrrum nýlendu Portúgals á Atlantshafinu.