Hættur sem Skeljungur taldi geta leitt af samrunum Festi og N1 annars vegar og Olís og Haga hins vegar hafa „raungerst að einhverju leyti“. Þetta mat Skeljungs og Port I kemur fram í samrunaskrá vegna fyrirhugaðs samruna félaganna.

Í nóvember ritaði Skeljungur undir samning um kaup á öllu hlutafé í Port I en þar er á ferð eignarhaldsfélag Dælunnar og bílaþvottastöðva Löðurs. Ekki liggur fyrir hvort Port I verði innlimað í Skeljung eða rekið sem sérstakt dótturfélag verði af samrunanum.

Í samrunaskránni, sem birt er án trúnaðarupplýsinga, kemur fram að gengi Dælunnar hafi verið bagalegt. Sem kunnugt er var það eitt skilyrða fyrir samruna Festi og N1 að stöðvar Dælunnar yrðu seldar úr hinu sameinaða félagi. Skýringar fyrir slæmu gengi Dælunnar má að mati aðila meðal annars rekja til nálægðar stöðvanna við sjálfsafgreiðslustöð Costco.

„Einungis fáum mánuðum eftir sölu Dælunnar til núverandi eigenda, opnaði N1 auk þess eldsneytisstöð fyrir utan Krónuna í Lindahverfi. Sú stöð er mitt á milli Dælustöðvanna við Salaveg og Hæðarsmára. Eldsneytisverð á N1 stöðinni við Krónuna er undantekningalaust með því lægsta á svæðinu. Meðal annars af þessum sökum er Dælunni erfitt að stunda samkeppni á eðlilegum forsendum við aðra aðila á markaðnum,“ segir í skránni.

Áttu von á uppsögn á leigusamningum

Þar segir enn fremur að Skeljungi hugnist ekki möguleg skilyrði Samkeppniseftirlitsins (SKE) fyrir samrunanum að félaginu yrði gert að loka einhverjum stöðvum. Slíkt myndi hafa merkjanleg áhrif á samkeppnisstöðu félagsins. Nær lagi væri að færa dæluna undir merki Orkunnar en með því móti væri líklegra að Skeljungur myndi ná að halda hlutdeild sinni og velja betur hvaða stöðvar skuli seldar eða lagðar niður.

„Hér má minna á að helstu keppinautar Skeljungs eru nú orðnir hluti af stórum viðskiptaveldum á ótengdum eða lítið tengdum mörkuðum og hafa því ekki öll eggin í sömu körfunni lengur. Í athugasemdum Skeljungs til SKE vegna kaupa smásölurisanna á olíufélögunum N1 og Olís var farið yfir ýmsar hættur sem félagið taldi leiða af báðum samrunum,“ segir í skránni. Þær hafi raungerst.

Nefnir Skeljungur til dæmis að bensínstöðvar hafi sprottið upp á lóðum við Bónus og Krónuna en þar séu á ferð afar mikilvægar staðsetningar. Hagræði af því að geta verslað matvöru og eldsneyti á sama stað feli í sér mikil þægindi fyrir neytendur. „Í þessu sambandi má benda á að Skeljungur taldi líklegt að Reitir og Hagar myndu segja upp leigusamningum Skeljungs á vissum lóðum til þess að koma eigin olíufélögum fyrir,“ segir þar enn fremur.

Markmiðið með samrunanum sé annars vegar að styrkja stöðu Skeljungs á eldsneytismarkaði og styrkja rekstur sinn með kaupum á löðri. Að mati fyrirtækjanna væru áhrif samrunans ekki slík að til íþyngjandi skilyrða þyrfti að koma af hálfu SKE.

SKE hefur birt samrunaskrána til að gefa hagaðilum og áhugafólki kost á að koma athugasemdum að við meðferð samrunamálsins. Frestur til athugasemda er tvær vikur og rennur sitt skeið í lok mánaðar.