Sigríður Björg Tómasdóttir, fréttastjóri á Fréttablaðinu, hefur sagt upp störfum, en Ólafur Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins, staðfestir þetta í samtali við Viðskiptablaðið.

Sigríður sendi samstarfsfólki sínu póst þessa efnis í dag þar sem hún segist ekki munu snúa aftur til vinnu að loknu sumarfríi. Þá hefur Sunna Valgerðardóttir, blaðamaður á Fréttablaðinu, einnig sagt upp störfum.

Um síðustu mánaðamót var sex starfsmönnum 365 miðla sagt upp, þar á meðal fréttastjórunum Trausta Hafliðasyni og Arndísi Þorgeirsdóttur. Í Fréttablaðinu um helgina var auglýst eftir blaðamönnum hjá 365 miðlum, enda mörg skörð sem þarf að fylla á blaðinu.