*

mánudagur, 19. apríl 2021
Innlent 10. maí 2013 14:35

Hætti að nota afritunarvörn á rafbækur

Bókaútgáfan TOR hætti að nota afritunarvörn á rafbókum, en ólögleg dreifing á bókunum hefur ekkert aukist.

Ritstjórn

Þrátt fyrir að hafa tekið alla afritunarvörn af rafbókum sínum segir bókaútgáfan TOR að ólöglegt niðurhal og dreifing á bókunum hafi ekkert aukist á þeim tólf mánuðum sem liðnir eru frá því að ákvörðunin var tekin.

Í apríllok í fyrra var þessi ákvörðun tekin hjá TOR, sem er einn stærsti útgefandi vísindaskáldsagna í heiminum, bæði vegna þrýstings frá lesendum, en ekki síður vegna þess að margir af vinsælustu rithöfundunum vildu að afritunarvörnin yrði fjarlægð.

Afritunarvörn, sem á ensku er kölluð Digital Rights Management (DRM), er hugbúnaður sem á að koma í veg fyrir að forrit eða í þessu tilviki rafbækur séu afritaðar og takmarkar einnig í mörgum tilvikum hvernig hægt er að nota bækurnar. Afritunarvarðar rafbækur er t.d. ekki endilega hægt að nota í hvaða lesbretti sem er og oft eru sett takmörk á það hvað hægt er að opna sama eintakið í mörgum tækjum.

Á vefsíðu TOR er áhersla lögð á að ein af ástæðunum fyrir því að þessi leið var valin sé sérstaða lesendahópsins sem nýtur vísindaskáldskapar. Hann sé framarlega í því að tileikna sér nýja tækni og að samfélag lesenda og samband þeirra við höfundana sé nánara en í mörgum öðrum skáldskapargeirum. Þá hafi margir höfundar, þar á meðal Peter F. Hamilton, China Miéville og Gary Gibson tekið afar vel í þá ákvörðun að hætta með afritunarvörnina.

Höfundarréttur rithöfunda skiptir bókaútgáfuna máli, en í yfirlýsingu TOR er bent á að afritunarvörðum bókum er samt sem áður deilt ólöglega á netinu, en að flestir lesendur vilji greiða fyrir bækurnar sem þeir lesa. Eins og áður segir hefur engin mælanleg aukning orðið á ólöglegri dreifing rafbóka frá TOR þótt það sé tæknilega auðveldara nú.