Stefnt er að því að Íslendingar verði hættir að brenna jarðefnaeldsneyti eftir 30 ár og nýti þess í stað umhverfisvænni orkugjafa samkvæmt nýrri orkustefnu fram til ársins 2050 sem kynnt var í dag . Stjórnvöld stefna jafnframt á að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.

„Orkuskipti eru vel á veg komin í samgöngum á landi, en önnur svið eru enn á byrjunarreit, svo sem haftengd og flugtengd starfsemi. Því er mikilvægt að útvíkka stefnumótun og aðgerðir fyrir orkuskipti þannig að þau taki til allra sviða sem enn eru að miklu leyti háð notkun jarðefnaeldsneytis,“ segir í orkustefnunni. Því þurfi að beita hagrænum hvötum og beinum aðgerðum sem hvetja til orkuskipta. Fyrir því séu gild hagræn og umhverfisleg rök.

Orkuskipti er eitt af tólf markmiðum sem lögð eru fram í orkustefnunni. Fulltrúar allra þingflokka auk fjögurra ráðuneyta áttu sæti í starfshópnum sem vann stefnuna. Á vef stjórnarráðsins segir að einhugur hafi verið um niðurstöðuna.

„Þegar við skoðum meginmarkmiðin tólf sjáum við að við eigum mörg óunnin verkefni. Þar liggja gríðarleg sóknarfæri,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

„Stefnan leysir auðvitað ekki öll ágreiningsmál en hún leiðir fram hvað við getum verið sammála um þegar við setjumst niður í einlægum vilja til að koma okkur saman um grundvallarmarkmið. Það er ekki bara mikilvægt heldur nauðsynlegur vegvísir til framtíðar. Ég vil þakka starfshópnum, starfsmönnum hans og öllum öðrum sem unnu að stefnunni fyrir að leggja þann metnað og alúð í þetta verkefni sem afurðin endurspeglar. Næstu skref eru að setja fram árangursvísa og aðgerðir sem byggja á markmiðum stefnunnar, en fjöldi verkefna sem styðja við stefnuna er þegar kominn vel á veg,“ segir Þórdís Kolbrún enn fremur.

Markmiðin tólf sem nefnd eru í stefnunni eru:

  • Orkuþörf samfélags er ávallt uppfyllt
  • Innviðir eru traustir og áfallaþolnir
  • Orkukerfið er fjölbreyttara
  • Ísland er óháð jarðefnaeldsneyti; orkuskipti eru á landi, á hafi og í lofti
  • Orkunýtni er bætt og sóun lágmörkuð
  • Auðlindastraumar eru fjölnýttir
  • Gætt er að náttúruvernd við orkunýtingu
  • Umhverfisáhrif eru lágmörkuð
  • Nýting orkuauðlinda er sjálfbær
  • Þjóðin nýtur ávinnings af orkuauðlindunum
  • Orkumarkaður er virkur og samkeppnishæfur
  • Jafnt aðgengi að orku er um allt landið