Í gær greindu fjölmiðlar frá því að hugbúnaðarfyrirtækið Adobe hefði náð samkomulagi um kaup á bandaríska hugbúnaðarfyrirtækinu Figma fyrir rúmlega 20 milljarða dala.

Hinn 30 ára gamli Dylan Field stofnaði Figma árið 2012 með Evan Wallace, þáverandi skólafélaga sínum í Brown University, að því er kemur fram í grein Wall Street Journal. Wallace lét af störfum síðla árs 2021, en Field segir hann hafa viljað prófa ný verkefni.

Figma er vettvangur sem gerir fólki kleift að hanna verkefni saman á netinu. Félagið óx hratt í faraldrinum eins og flest önnur hugbúnaðarfyrirtæki. Meðal viðskiptavina félagsins eru Uber Technologies og Square Inc sem er nú þekkt undir nafninu Block Inc. Í byrjun árs 2018 var félagið 115 milljón dala virði. Í fyrra hafði virði félagsins skotist upp í 10 milljarða dala.

Field hóf nám í Brown University en á sínu fyrsta ári sótti hann um styrk í gegnum Thiel Fellowship sjóðinn sem milljarðamæringurinn Peter Thiel stofnaði. Styrkurinn, sem var upp á 100 þúsund dali, var í boði fyrir þá sem myndu hætta í háskóla til að hefja einhvers konar frumkvöðlastarfsemi. Field sótti um og fékk styrk á grundvelli hugbúnaðar í drónum sem fylgist með og gómar kærulausa ökumenn í umferðinni.

Field hætti í skóla og hóf að vinna í drónahugmyndinni, sem gekk hins vegar ekki upp sem skildi. Hans næsta hugmynd, Figma, gekk upp og rúmlega það.

Field á enn stóran hlut í félaginu og mun því verða að milljarðamæringi ef salan gengur í gegn.