Bill Gates, stofnandi Microsoft, átti í ástarsambandi við starfsmann fyrirtækisins fyrir rúmum tuttugu árum. Stjórn Microsoft réð lögfræðistofu til að rannsaka málið eftir eftir að verkfræðingur fyrirtækisins hélt því fram að hún hefði átt kynferðislegt samband við Gates í nokkur ár. Hann hætti í stjórninni áður en rannsókninni lauk. WSJ greinir frá.

Stjórn netrisans hafði miklar áhyggjur af því að samband Gates hafi verið óviðeigandi og vildi síður hafa stjórnarmann sem væri tengdur við mál af þessu tagi í kjölfarið á #MeToo hreyfingunni.

„Það var ástarsamband fyrir rúmum tuttugu árum síðan sem lauk friðsamlega,“ er haft eftir talskonu Gates. Hún bætti þó við að ákvörðunin hans um að hætta í stjórn Microsoft hafi ekki tengst þessu máli heldur hafi hann ákveðið að eyða meiri tíma í góðgerðastörf.

Hjónin Bill og Melinda Gates tilkynntu í byrjun mánaðarins um að þau hafi ákveðið að skilja eftir 27 ára hjónaband. „Við teljum okkur ekki lengur geta vaxið saman sem hjón í næsta hluta lífs okkar,“ segir í tilkynningu þeirra.

Melinda hefur unnið með nokkrum lögfræðistofum frá árinu 2019 til að vinda ofan af hjónabandinu. Talið er að hún hafi verið óánægð með samskipti Bill við Jeffrey Epstein, dæmdum kynferðisafbrotamanni sem lést í fangaklefa árið 2019. Talskona Bill sagði árið 2019 að hann hafi hitt Epstein vegna hjálparstarfa og bætti við að hann sjái eftir fundunum.

Melinda hefur þegar fengið eignir að andvirði 3 milljörðum dala frá Bill eftir skilnaðinn. Fjárfestingafélag í eigu Bill, Cascade Investment, millifærði nýlega hlutabréf í framleiðslufyrirtækinu Deere & Co. að andvirði 851 milljón dala, að því er kemur fram í frétt Bloomberg . Þar áður hafði hann millifært hlutabréf í mexíkósku fyrirtækjunum Coca-Cola Femsa og Grupo Televisa ásamt hlutabréfum að andvirði 1,8 milljörðum dala í Canadian National Railway Co. og AutoNation Inc.