*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 28. september 2018 15:01

Hætti rekstri tollfrjálsra verslana

Frumvarpið felur það í sér að Isavia hætti að reka verslanir með tollfrjálsar vörur í smásölu á Keflavíkurflugvelli.

Sveinn Ólafur Melsted
Flugstöð Leifs Eiríkssonar
Haraldur Guðjónsson

Fjórir þingmenn úr röðum Sjálfstæðisflokksins, þau Teitur Björn Einarsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Óli Björn Kárason og Vilhjálmur Árnason, hafa lagt fram frumvarp um lagabreytingar á starfsemi ríkisfyrirtækisins Isavia.

Þessar lagabreytingar myndu fela það í sér að Isavia hætti að reka verslanir með tollfrjálsar vörur í smásölu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og bjóði í staðinn verslunarrými út til fyrirtækja á almennum smásölumarkaði. Þessi fyrirtæki myndu því sjá um að annast alla verslunarþjónustu við farþega flugstöðvarinnar fyrir utan Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) sem myndi þá sjá um sölu á áfengi og tóbaki. Samkvæmt lögum ber Isavia skylda til að sjá um rekstur fríhafnarverslunar í núverandi lagaumhverfi.

Í frumvarpinu kemur fram að markmið frumvarpsins sé að breyta núverandi fyrirkomulagi og mæla fyrir um að ríkið hætti samkeppnisrekstri á ýmsum smásöluvörum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar en bjóði þess í stað út allan rekstur á verslunum með vörur og þjónustu í samræmi við ákvæði laga um opinber innkaup þar sem gætt sé að jafnræði fyrirtækja og stuðlað að virkri samkeppni milli aðila á innlendum smásölumarkaði. Þar kemur einnig fram að tilgangur frumvarpsins sé að hlutverk Isavia verði áfram að meginstefnu til að annast rekstur og uppbyggingu flugstöðvar Leifs Eiríkssonar en öðrum aðilum verði falinn rekstur verslunar og þjónustu í flugstöðinni. Þannig sé skilið betur á milli þess sem fellur undir eðlilegt verksvið ríkisins í flugstöðinni og hefðbundinnar verslunar og þjónustu sem best  sé komin í höndum einkaaðila í virkri samkeppni á smásölumarkaði.

Við mat á áhrifum og gildistöku frumvarpsins kemur fram að lagt sé  til grundvallar að frumvarpið hafi ekki mikil áhrif á heildarafkomu Isavia þar sem afgjald fyrir afnot af verslunarrými í flugstöðinni hljóti að endurspegla eftir atvikum þann ábata sem félagið hefur haft af fríhafnarrekstrinum.

Allt frá árinu 1958 hefur fríhafnarverslun verið rekin með einum eða öðrum hætti í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Isavia ohf. var stofnað árið 2010, en félagið á og rekur félagið Fríhöfn ehf. og er tilgangur þess að reka fríhafnarverslanir.

Umrætt félag rekur nú fimm verslanir í flugstöðinni, en þessar verslanir njóta opinberrar íhlutunar í formi skattleysis. Samkvæmt frumvarpinu skekkir slíkt fyrirkomulag ekki einungis innlenda samkeppni heldur séu skatttekjur af innlendri verslun lægri vegna núverandi fyrirkomulags sem leiði til þess að innlendir neytendur beri hlutfallslega hærri byrðar en ella.

Vilja færa hlutverk Isavia nær kjarnastarfseminni

Teitur Björn Einarsson, aðalflutningsmaður frumvarpsins, telur að ríkið sé ekki hentugur aðili til að stunda verslunarrekstur, heldur séu aðrir aðilar mun betur til þess fallnir að taka áhættu af slíkri starfsemi og þjónusta viðskiptavini.

„Þetta frumvarp miðar að því að færa hlutverk og starfsemi Isavia meira í átt við þá kjarnastarfsemi sem því félagi er ætlað að sinna á Keflavíkurflugvelli, sem tengist flugrekstri og flugumsjón á flugvellinum, sem er eðlilegra að hið opinbera komi að með einhverjum hætti en eftirláti einkaaðilum á samkeppnismarkaði verslunarrekstur og þjónustu við þá farþega sem fara um flugvöllinn.

Það skýtur mjög skökku við þegar maður horfir á þessar fimm verslanir sem Isavia rekur í gegnum félagið Fríhöfn ehf., að fyrir utan áfengi og tóbak sem eru mjög sérstakar vörur vegna þess að einokun á smásölunni er í höndum ÁTVR, eru þarna aðrar hefðbundnar vörur til sölu sem kalla ekki eftir opinberri íhlutun ríkisins í rekstri, eins og til dæmis sælgæti, snyrtivörur, ferðavörur og leikföng. Ef maður skoðar umfangið á starfsemi Fríhafnarinnar ehf. og sérstaklega eðli þessarar komuverslunar, sem er nær óþekkt fyrirbæri í öðrum flugstöðvum nágrannalanda okkar, þá blasir við sú mynd að ríkið í gegnum þessi félög er allt að því einn stærsti smásöluaðili, til að mynda á snyrtivörum, á innanlandsmarkaði. Það teljum við að sé óeðlilegt og ekki eitt af hlutverkum ríkisins, og að þessi starfsemi sé betur komin í höndum aðila á samkeppnismarkaði." 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.