Útgerð á Suðurnesjunum var í Héraðsdómi Reykjaness í vikunni sýknuð af kröfu fyrrverandi starfsmanns um greiðslu launa í uppsagnarfresti vegna þess sem hann taldi vera ólögmæta uppsögn. Í stað þess að fá 2,4 milljónir króna greiddar auk dráttarvaxta situr maðurinn uppi með 900 þúsund króna málskostnað.

Starfsmaðurinn er vélstjóri á sjötugsaldri og hafði í á þriðja áratug sinnt viðgerðum á bátum útgerðarinnar. Starfsferill hans hjá útgerðinni rann sitt skeið í byrjun árs 2018 en aðilar voru ekki sammála um hver aðdragandi þeirra var.

Að sögn vélstjórans má rekja þau til þess er bátur útgerðarinnar bilaði við veiðar. Við skoðun kom í ljós að rótor í bátnum hafði gefið sig. Vélstjórinn bar því við að hann hefði kannað hve langan tíma það tæki að fá í hann varahlut og fengið þau svör að það væru sex vikur. Lét hann skipstjórann vita af því en sá hafi haft samband við fyrirsvarsmann útgerðarinnar sem hafi í kjölfarið skipað honum að gera við bátinn. Þegar vélstjórinn hafi sagt honum að það væri ómögulegt hafi honum verið skipað að „drulla sér af vinnustaðnum“.

Í yfirlýsingu skipstjórans, sem lögð var fyrir dóminn, segir að hann hafi rætt við vélstjórann vegna bilunarinnar. Sá hafi brugðist hinn versti við og sagt að málið „[kæmi] honum ekkert við þar sem hann sé hættur að gera við bátana“. Að þessu hafi verið tvö vitni sem einnig hafi starfað á verkstæðinu. Sambærileg frásögn kom fram í greinargerð útgerðarinnar.

Eftir starfslok leitaði vélstjórinn til Verkalýðsfélags Grindavíkur en félagið náði samningum við útgerðina að maðurinn fengi greidd laun í rúmlega þrjá mánuði. Tók hann við greiðslunum athugasemdalaust en skömmu eftir þá síðustu taldi hann ekki rétt staðið að starfslokunum. Taldi hann sig eiga inni, sökum starfsaldurs, tveggja mánaða laun til viðbótar þar sem uppsagnarfrestur hans hafi verið sex mánuðir.

Fyrir dómi bar maðurinn því við að samkomulag verkalýðsfélagsins við útgerðina ætti að virða að vettugi enda ætti hann að rétt á sex mánaða uppsagnarfresti hið minnsta. Óheimilt væri að skerða þann lágmarksrétt með slíku samkomulagi. Þá hefðu reglur sem gilda um starfslok ekki verið virtar, svo sem skriflegt uppsagnarbréf og að ástæður uppsagnarinnar væru kunngjörðar. Þá gerði hann einnig kröfu um miskabætur vegna uppsagnarinnar.

Hætti sjálfur störfum í fússi

Útgerðin taldi aftur á móti að maðurinn hefði yfirgefið starf sitt í fússi. Aðrir starfsmenn á vinnustöð hennar gætu borið vitni um það sem gerst hafði, það er að vélstjórinn hafi ítrekað neitað að sinna því starfi sem hann var ráðinn til að vinna. Segi starfsmaður sjálfur upp störfum eigi hann rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti samkvæmt þeim kjarasamningi sem gilti þarna. Að endingu hafi samkomulag við verkalýðsfélagið falið í sér fullnaðaruppgjör og haldlaust væri að koma síðar og krefjast meiri fjármuna.

Í niðurstöðu dómsins segir að ekki verði annað ráðið af framburði vitna en að vélstjórinn hafi neitað að sinna viðgerð á fyrrnefndum bát þrátt fyrir að hafa fengið fyrirmæli um það frá yfirmanni sínum. Fullyrðing vélstjórans um að yfirboðari hans hefði vinsamlegast beðið hann um að „drulla sér af vinnustaðnum“ voru ekki studdar neinum gögnum. Aftur á móti renndi frá sögn fjögurra vitna stoðum undir málsstað útgerðarinnar.

„Lítur dómurinn svo á að [vélstjórinn] hafi, með því að bregðast ekki við skipunarvaldi framkvæmdastjóra [útgerðarinnar] en yfirgefa vinnustaðinn þess í stað og mæta ekki til starfa á ný, að eigin frumkvæði slitið ráðningarsambandi sínu við [útgerðina]. Verður [vélstjórinn] að bera hallann af því og eiga kröfur hans á hendur [útgerðinni] um laun í uppsagnarfresti þar með enga stoð,“ segir í dóminum og gilti hið sama um miskabótakröfuna.

Útgerðin var því, sem fyrr segir, sýknuð og vélstjórinn dæmdur til að greiða henni 900 þúsund krónur í málskostnað.