Bandarískur „áhrifamaður“ hætti við nethýsingu á efni og þjónustu á Íslandi eftir að hann frétti af áformum Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, um að koma með einhverjum hætti í veg fyrir dreifingu á klámi yfir internetið. Kemur þetta fram á bloggsíðu Hjálmars Gíslasonar, stofnanda Datamarket.

Segir Hjálmar að þessi Bandaríkjamaður hafi hugsað sér að þjónusta félagasamtök, einstaklinga og fyrirtæki sem ekki vildu vera undir því ægivaldi sem bandarísk stjórnvöld hafi í skjóli Patriot löggjafarinnar svokölluðu og sambærilegrar lagasetningar. Einn af þeim stöðu sem honum þótti koma til greina fyrir slíka hýsingu var Ísland. „Hann hafði hins vegar heyrt af þessum hugmyndum Ögmundar og afskrifaði landið umsvifalaust sem mögulegan hýsingarstað. Það kaldhæðnislega er að mig grunar að sumir fylgismenn hugmynda Ögmundar myndu að sama skapi rifna af stolti ef Ísland gæti veit meðlimum samtaka eins og t.d. Occupy skjól fyrir sambærilegu valdi bandaríkjastjórnar,“ segir Hjálmar.

Í færslunni fjallar hann almennt um hugmyndir Ögmundar. „Það er frægt að leiðin til heljar er vörðuð góðum ásetningi. Að baki þessum hugmyndum liggur meðal annars “mikilvægi þess að börn hafi ekki aðgang að grófu efni”. Af þeim sem ég þekki og bent hafa á gallana og hætturnar við þessar hugmyndir, veit ég ekki um neinn sem er ósammála því að þetta sé mikilvægt. Til þess að sporna við því eru hins vegar ótalmargar leiðir sem ekki fela í sér miðlæga stjórnun á því hvaða efni sé aðgengilegt á Íslandi.“ Segir hann að fjarskiptafyrirtækin bjóði flest upp á lausnir sem leyfi foreldrum að stjórna aðgengi að efni á netinu mjög nákvæmlega.

„Í hvert sinn sem við veitum stjórnvöldum ný tæki eða völd, verðum við líka að hugsa hvernig gætu stjórnvöld sem okkur hugnast síður nýtt sér þau sömu tæki og völd? Stjórnvöld með miðstýrð tæki og völd til að loka aðgengi að efni á internetinu og þar með – óhjákvæmilega – einnig til að fylgjast með netnotkun Íslendinga, eru stjórnvöld sem við eigum að óttast.“