Barclays banki ætlar að leggja niður umdeilda deild innan bankans sem hefur aðstoðar ríka aðila við að komast undan greiðslu skatta með ýmsum hætti. Samkvæmt heimildum BBC, breska ríkisútvarpsins, verður tilkynnt um breytingar á starfssviðum Barclays næsta þriðjudag. Sama dag verður uppgjör síðasta árs birt.

Barclays hefur eins og fleiri bankar legið undir ámæli, meðal annars vegna Libor-málsins svokallað. Bankinn fékk 290 milljóna punda sekt á síðasta ári vegna málsins. Í kjölfarið sagði Bob Diamond, þáverandi bankastjóri Barclays, af sér og Anthony Jenkins tók við. Hann þykir hafa lagt aukna áherslu á ímynd bankans og siðferði hans.

Búist er við að Barclays haldi áfram að bjóða viðskiptavinum þjónustu við skattamál en muni ekki aðstoða fyrirtæki eða aðra við að forðast greiðslu skatts.