Facebook hefur verið að spyrja suma notendur sína óvenjulegrar og óþægilegrar spurningar: Hverjum eða hverju ertu að sofa hjá?

Á vef Business Insider er fjallað um að Facebook hafi stundað það að biðja fólk um að ljúka við alls konar setningar sem flestar eru meinlausar eða skemmtilegar siðferðisspurningar. Spurningarnar geta t.d. verið „Ef þú gætir valið á milli þess að lesa hugsanir eða fjarflutt (e. teleport) þig, myndirðu frekar...“ eða „Þegar þér líkar ekki við gjöf þá...“. Síðan bættist við spurningin „Ég sef venjulega hjá...“

Eftir að Business Insider birti frétt um þessa óvenjulegu spurningu hefur Facebook ákveðið að taka hana út en talsmenn miðilsins sögðu að spurningin hefði átt að vera meinlaus og fjölskylduvæn spurning um svefnvenjur fólks og hvort það svæfi t.d. með bangsa, vatnsflösku eða sæng.

Hins vegar hefur orðalagið þótt vera ansi órætt og Facebook því ákveðið að taka spurninguna úr umferð líkt og áður sagði.