Stjórnarformaður Alphabet, sem er móðurfélagið í Google samsteypunni, Eric Schmidt mun stíga til hliðar í janúar eftir 17 ár í stöðunni.

Þegar stofnendur Google, Larry Page og Sergey Brin voru spurðir að því árið 2001 þegar hann var ráðinn hvers vegna þeir þyrftu einhvern annan til að reka fyrirtækið svaraði sá síðarnefndi að þeir þyrftu „satt að segja eftirlit foreldra.“ Schmidt mun þó áfram sitja í stjórn félagsins og starfa sem tæknilegur og vísindalegur ráðgjafi fyrir fyrirtækið.

„Það er kominn sá tími í þróun Alphabet að við byrjum þessa breytingu,“ sagði Schmidt í yfirlýsingu, en hann hann starfaði sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins frá árinu 2001 til 2011. Undir hans stjórn fór fyrirtækið á markað árið 2004 og árið 2015 var fyrirtækið endurskipulagt þannig að Google sjálft varð að einingu innan móðurfélagsins Alphabet.

Er honum þakkað í frétt Reuters að fyrirtækið hafi þroskast í sterkt fyrirtæki en hann er sagður mjög tæknilega sinnaður og því passað vel inn í starfsemi fyrirtækisins. Stofnendurnir hafi til að byrja með einblínt á vöruþróun meðan hann hafi beint sjónum sínum að því hvernig ætti að stækka allar vörur á alþjóðamarkað.

Þó hefur fyrirtækið ekki verið alveg laust við vandamál undir hans stjórn, og stóð fyrirtækið frammi fyrir nokkrum lögsóknum. Þar á meðal þar sem hann og forstjóri Apple, Steve Jobs voru sakaðir um að halda launum í tækniiðnaðinum niðri með því að ráða ekki starfsmenn hvors annars. Þurfti fyrirtækið að greiða 415 milljón dali, eða sem samsvarar tæplega 44 milljörðum vegna málsins.