Marel hefur lokið endurkaupaáætlun sinni, sem tilkynnt var um í Kauphöll þann 10. mars 2020. Samtals keypti félagið rúmlega 14 milljón hluti sem nemur 1,86% af útgefnum hlutum í félaginu og nam heildarkaupverð hlutanna rúmlega 8,6 milljörðum króna. Meðalkaupverð hlutabréfa var 601,9 krónur á hlut.

Í kjölfarið á tilkynningunni hafa bréf félagsins á íslensku kauphöllinni lækkað um 4,35% í viðskiptum upp á 152 milljón krónur. Bréf félagsins standa nú í 660 krónur á hlut.

Tilgangur endurkaupanna var að lækka hlutafé félagsins og standa við skuldbindingar sem leiða af kaupréttarsamningum við starfsmenn félagsins. Marel hf. á nú 23.080.637 eigin hluti eða sem nemur 2,99% af útgefnum hlutum í félaginu og heildarfjöldi útistandandi kauprétta sem Marel hefur veitt starfsmönnum sínum nemur 21,5 milljónum hluta, eða um 2,79% hlutafjár í félaginu.