*

laugardagur, 12. júní 2021
Innlent 25. maí 2018 13:36

Hættir hjá Bílgreinasambandinu

Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, hefur óskað eftir að láta af störfum hjá sambandinu.

Ritstjórn
Özur Lárusson
Haraldur Guðjónsson

Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, hefur óskað eftir að láta af störfum hjá sambandinu eftir tólf ára farsælan uppbyggingarferil og hefur stjórn sambandsins orðið við þeirri ósk. Özur mun sinna áfram daglegum störfum uns gengið hefur verið frá ráðningu nýs framkvæmdastjóra.

„Ég tel að eftir tólf ára starf í spennandi uppbyggingu og vaxandi starfsemi hjá sambandinu sé rétti tíminn fyrir bæði mig og Bílgreinasambandið að nýr einstaklingur taki við keflinu í þeim nýju verkefnum sem framundan eru. Ég var um langt árabil framkvæmdastjóri hjá Landssamtökum sauðfjárbænda sem var líka mjög skemmtilegt og krefjandi uppbyggingarstarf og nú langar mig einfaldlega að freista gæfunnar á ný, ekki síst núna þegar það eru mörg spennandi tækifæri til staðar,“ segir Özur Lárusson.

Jón Trausti Ólafsson, formaður Bílgreinasambandsins segir mikla eftirsjá af Özuri sem leitt hafi uppbyggingu í starfsemi sambandsins undanfarin ár.  Stjórn Bílgreinasambandsins hefur hafið leit og undirbúning að ráðningu nýs framkvæmdastjóra fyrir sambandið.