Aziz McMahon, framkvæmdastjóri hjá fjárfestingabankarisanum Goldman Sachs, hefur sagt starfi sínu lausu í kjölfar þess að hafa auðgast verulega á jarm-myntinni (e. meme currency) dogecoin. Markets Insider greinir frá þessu.

McMahon hafði starfað hjá Lundúnaskrifstofu fjárfestingabankans í 14 ár. Goldman Sachs hefur staðfest að hann hafi látið af störfum en ekki var gefin upp ástæða fyrir starfslokunum. Heimildir Markets Insider herma að McMahon ætli sér að nýta dogecoin gróðann til að setja vogunarsjóð á laggirnar.

Rafmyntin dogecoin var komið á fót árið 2013 sem grín, en á undanförnu ári hefur gengi rafmyntarinnar hækkað um hvorki meira né minna en 10.300%.

Sjá einnig: Dýrasti brandari sögunnar

Tesluforstjóranum skrautlega Elon Musk er helst þakkað fyrir þessar miklu hækkanir, enda hefur hann reglulega látið fögur orð falla um dogecoin á opinberum vettvangi. Önnur þekkt nöfn á borð við Mark Cuban, Snoop Dogg og Kiss meðlimurinn Gene Simmons hafa einnig fjárfest í rafmyntinni.

Dogecoin er nú orðin fimmta stærsta rafmynt í heimi, miðað við markaðsvirði sem stendur nú í um 64 milljörðum dollara. Gengi rafmyntarinnar hækkaði um 30% um síðustu helgi eftir að Musk stýrði Saturday Night Live. Þar sagði hann að jarm-myntin væri á hraðri uppleið, að hún væri jafn raunveruleg og dollaraseðill, og spáði Musk því að dogecoin myndi „taka yfir heiminn“.