Jóna Sólveig Elínardóttir sem gegnt hefur embætti varaformanns Viðreisnar ætlar að láta af embættinu en hún tilkynnti stjórn flokksins þá ákvörðun um miðjan desember. Jóna skipaði fyrsta sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi fyrir kosningarnar í lok október og hafði þá setið á þingi fyrir Viðreisn frá árinu 2016.

Jóna birti ákvörðun sína í færslu á Facebook sem lesa má í heild sinni hér að neðan.

„Kaflaskipti. Um miðjan desember tilkynnti ég stjórn Viðreisnar um þá ákvörðun mína að ég léti af embætti varaformanns. Ákvörðunin er tekin að vel ígrunduðu máli en eins og sakir standa, og í ljósi þess að nú er nýr áfangi í lífi mínu að hefjast, tel ég mig ekki geta gefið mig af fullum krafti í embættið. Þetta þýðir ekki að ég sé hætt afskiptum af stjórnmálum en ég tel að nú sé rétt að beina athyglinni tímabundið að öðrum verkefnum.
Með ósk um farsælt komandi ár þakka ég stjórn flokksins, trúnaðarmönnum og öllu því frábæra fólki sem hefur stutt mig í þessu hlutverki fyrir frábært samstarf sl. 1 1/2 ár.“