Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, greinir frá því í samtali við Fréttablaðið að hætt hafi verið við árshátíðarferð stofnunarinnar þar sem að flugið sem átti að ferja starfsfólkið út hafi verið með Wow air en hún nefnir aukið álag einnig sem ástæðu. Ferðin átti að vera um liðna helgi.

Í kjölfar gjaldþrots Wow air hefur mikið mætt á starfsfólki Vinnumálastofnunar. Til marks um það höfðu 700 umsóknir um atvinnuleysisbætur borist stofnuninni frá fyrrum starfsmönnum Wow air.

„Þegar svona gerist þá þarf að tryggja að allir sem eiga bótarétt fái greiðslur sem fyrst og núna um mánaðamótin eru að koma greiðslur til þeirra. Það fylgir því heilmikil vinna,“ segir Vilmar Pétursson, mannauðsstjóri Vinnumálastofnunar í samtali við Fréttablaðið.