Stjórn Arion banka hætti við að leggja fram tillögu um hækkun stjórnarlauna á aðalfundi bankans í gær . Þess í stað var lögð fram tillaga um að stjórnarlaun myndu haldast óbreytt sem var samþykkt.

Stjórnin hafði áður ætlað sér að leggja fram tillögu um að stjórnarlaun hækkuðu um 22%. Þar með munu almennir stjórnarmenn áfram vera með 491 þúsund krónum á mánuði í laun, varaformaður stjórnar með 736 þúsund krónur og stjórnarformaður með 981 þúsund krónur á mánuði.

Lífeyrissjóður verslunarmanna hafði lagst gegn hækkun stjórnarlaunanna. Þá lagðist Gildi lífeyrissjóður gegn framlagðri starfskjarastefnu bankans sem fól meðal annars í sér að koma á bónuskerfi og kaupréttum fyrir starfsmenn. Starfskjarastefnan var hins vegar samþykkt.

Miklar breytingar hafa orðið á hluthafahópi Arion banka á undanförnum mánuðum. Frá því í haust hafa stórir erlendir hluthafar bankans selt um 30% hlut í Arion og eiga nú um 12% hlut en á móti hafa innlendir aðilar, sér í lagi lífeyrissjóðir aukið við eignarhlut sinn.