Fyrirtækið TS Shipping hefur átt viðræður við Faxaflóahafnir og Hörgársveit og Hafnasamlag Norðurlands um að setja upp starfsemi á þeirra svæðum með það fyrir augum að rífa niður skip í brotajárn. Engin niðurstaða hefur hins vegar komist í viðræðurnar og nú á Dalvíkurbyggð í viðræðum við fyrirtækið. Greint er frá þessu í Fréttablaðinu .

„Við ræddum aldrei beint við fyrirtækið heldur lögfræðing þess. Þetta fyrirtæki var að okkar mati svolítið höfuðlaust og við sáum ekki forsendur til að halda áfram viðræðum,“ segir Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, í samtali við Fréttablaðið.

Bjarni Th. Bjarnason, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar, segir bæjarfélagið verða að snúa vörn í sókn vegna málsins.Viðræðurnar við fyrirtækið séu ekki komnar langt á veg. „Dalvíkurbyggð er í ákveðinni varnarbaráttu og við þurfum að efla atvinnulíf á svæðinu.“