Örtröð varð í útibúi Landsbankans á Fáskrúðsfirði í gær þegar fólk mætti í röðum á síðasta klukkutímanum fyrir endanlega lokun útibúsins til að taka út þá peninga sem það átti í bankanum. Er greint frá þessu á mbl.is .

Um miðjan dag safnaðist fólk saman við bankan og innandyra voru margir að taka út peninga. Flaggað var í hálfa stöng við bankann og var flutt ávarp þar sem fólk var hvatt til að taka út úr bankanum það fé sem það ætti. Ekki var þó nægt fé í útibúinu og var ekki hægt að afgreiða alla nema með því að bjóða þeim ávísanir eða vísa þeim í útibúið á Reyðarfirði.