Um 60% ítalskra kjósenda höfnuðu stjórnarskrárbreytingum í þjóðaratkvæðagreiðslu í gær. Úrslitin hafa haft töluverð áhrif á fjármálamarkaði í dag og hefur skuldatryggingaálag ríkisskulda Ítalíu hækkað töluvert í kjölfar úrslitanna og evran veiktist gagnvart Bandaríkjadal.

Stjórnarskrárbreytingarnar sem voru að tillögu Matteo Renzi forsætisráðherra landsins áttu að auka völd miðstjórnarinnar í Róm gagnvart héruðum landsins og draga úr valdi efri deildar þingsins svo auðveldara væri fyrir ríkisstjórn hvers tíma að koma lagabreytingum í gegn.

Sagði breytingarnar auka samkeppnishæfni

Í kjölfar ósigursins í kosningunum sagði Renzi, sem kemur frá hinum sósíaldemókratíska Lýðræðisflokki, af sér sem forsætisráðherra landsins líkt og hann hafði heitið.

Rök hans fyrir breytingunum var að með þeim væri hægt að gera landið samkeppnishæfara og hindra að staðbundnir hagsmunir gætu staðið í vegi fyrir breytingum og umbótatillögum.

Núverandi fyrirkomulag tryggir valdajafnvægi

Andstæðingar breytinganna vildu hins vegar viðhalda því valdajafnvægi sem stjórnarskráin tryggir en hún var hönnuð til að hindra að hreyfingar líkt og fasistaflokkur Mussolinis fyrrverandi einræðisherra landsins gæti tekið sér of mikið vald.

Einnig dreifir núverandi fyrirkomulag valdi út til héraða landsins sem og tryggir að efri deild þingsins geti haldið aftur af breytingum, en einungis kjósendur 24 ára og eldri geta kosið til þess.

Hreyfing andstæðinga evrunnar græða mest niðurstöðunum

Einn helsti sigurvegari gærdagsins var Fimm stjörnu hreyfingin svokallaði, sem skemmtikrafturinn Beppe Grillo stofnaði, en hann barðist gegn samþykkt stjórnarskrárbreytinganna. Hhreyfingin nú með um 30% fylgi í skoðanakönnunum sem er svipað fylgi og Lýðræðisflokkur Renzi.

Hreyfingin hefur árum saman barist fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um evruaðild landsins, sem meðal annars skýrir hví Grillo hefur verið kallaður hættulegast maður Evrópu af þýska blaðinu Der Spiegel.

Hreyfingin hefur fengið á sig stimpil popúlisma sem Grillo hefur í raun fagnað því hann viðurkennir að það séu líkindi með hreyfingu sinni og stuðningsmönnum Donald Trump í Bandaríkjunum.

„Síðasta vígið gegn öfgamönnum“

Flokkurinn tekur harða afstöðu gegn spillingu og helstu áhrifaöflum í landinu og Evrópu en hann lítur á hreyfinguna sem síðustu vörnina fyrir landið gegn raunverulegu öfgamönnunum eins og hann kallar þá.

„Þeir kalla mig popúlista, kalla okkur Nasista, kalla mig Hitler, en þeir skilja þetta ekki,“ sagði Grillo eitt sinn í viðtali, en fimm stjörnurnar í nafni flokksins standa fyrir fimm áhersluatriði sem eru vatn í almenningseigu, sjálfbærar samgöngur, réttinn til internetaðgangs og umhverfisvernd.

„Við erum að fylla upp í svipað tómarúm eins og Nasistarnir gerðu í Þýskalandi og Le Pen er að gera í Frakklandi. En við erum ekkert líkir þeim. Við erum hófsamt, fallegt fólk og það einu vörnina sem eftir stendur milli Ítalí og raunverulegu öfgaöflunum.“