Íslendingar verða að taka ákvörðun um aðild að Evrópusambandinu þegar samningar liggja fyrir, að sögn Lucindu Creighton, Evrópumálaráðherra Írlands. Hún segir það geta skaðað samband Íslands og Evrópusambandsins ákveði íslensk stjórnvöld að draga umsókn sína um aðild til baka. Hún gerir ráð fyrir því að aðildarviðræðurnar haldi áfram eftir þingkosningar í apríl þrátt fyrir að hægt hafi á aðildarferlinu.

Creighton segir í samtali við Bloomberg-fréttastofuna um málið nokkra kafla í viðræðunum enn opna og eigi eftir að loka þeim.

Þá er vitnað til þess í umfjöllun Bloomberg að samkvæmt niðurstöðum könnunar frá 18. janúar síðastliðnum vilji 48,5% Íslendinga halda áfram með aðildarferlið en 36,4% draga umsóknina til baka.